Viðskipti innlent

Verðbólguhorfur til skamms tíma lakari en áður

MYND/Anton

Verðbólguhorfur til skamms tíma eru lakari en við síðustu vaxtaæákvörðun bankastjórnar Seðlabankans og bankinn telur ekki unnt að lækka stýrivexti fyrr en á fyrri helmingi næsta árs. Þetta kom fram í máli Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra þegar hann rökstuddi þá ákvörðun Seðlabankans að halda stýrivöxtum óbreyttum. Hann sagðist aðspurður ekki finna fyrir þrýstingi á upptöku evrunnar líkt og viðskiptaráðherra.

Fram kom í rökstuðningi bankastjórnarinnar fyrir óbreyttum stýrivöxtum að nokkur gegnisórói hefði verið að undanförnu og verðbólguhorfur til skamms tíma væru heldur lakari nú en við síðustu vaxtaákvörðun. Til lengri tíma hefðu þær hins vegar lítið breyst. Gengisþróun væri nú mjög óviss og mundi ekki síst ráðast af framvindu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Þá benti Davíð Oddsson á í rökstuðningnum að verðbólga hefði hjaðnað eins og gert hefði verið ráð fyrir í seinustu spá bankans. Ætla mætti að spá um verðbólgu á þriðja ársfjórðungi héldi en að hún yrði heldur meiri á næstu fjórðungum en spáð var þar sem gengi krónunar yrði lítið eitt lægra en þá var byggt á.

Innlend eftirspurn enn kröftug

Davíð benti enn fremur á að vísbendingar sýndu að innlend eftirspurn væri enn kröftug og enn mikil spenna á vinnumarkaði. Þá yxi velta ört, mikil eftirspurn væri eftir fasteignum og útlánavöxtur hefði aukist. Hins vegar hefðu sviptingar á fjármálamálamörkuðum leitt til lakari lánskjara fjármálafyrirtækja og það hefði áhrif á útlánakjör. Þá hefði óróinn dregið úr óraunsærri bjartsýni á efnahagshorfur en hvort tveggja styddi við aðhaldsstefnu Seðlabankans.

Bankastjórn Seðlabankans segir langtímaverðbólguhorfur svipaðar og birst hafi í Peningamálum í júlí en í henni hafi meðal annars komið fram að hætta væri á verðbólgu vegna vegna hugsanlegrar gengislækkunar af völdum versnandi skilyrða á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. „Þar ríkir enn óvissa og óvarlegt að ætla að öfgafullum sviptingum sé lokið. Framvinda næstu mánaða mun að nokkru mótast af því," segir í rökstuðningnum.

Davíð benti enn fremur á að háir raunstýrivextir hefðu leitt til lækkandi verðbólgu en hnökrar í miðlun peningastefnunnar hefðu þó valdið því að verðbólga hefði hjaðnað hægar en ella. Þannig hefðu vextir á fasteignaveðlánum hækkað minna og hægar en æskilegt hefði verið, sem stuðlaði að áframhaldandi hækkun fasteignaverðs.

Bankastjórn Seðlabankans stefnir að því að vera nærri verðbólugmarkmiði um mitt næsta ár en versni verðbólguhorfur muni bankastjórn bregðast við. Hið sama gildir ef horfur batna.

Ekki þrýstingur á Seðlabankann að skoða upptöku evru

Davíð Oddsson var spurður út í þá ákvörðun Straums - Burðaráss að skrá hlutafé í evrum. Hann sagði þá ákvörðun ekki hafa ratað inn á borð bankastjórnar Seðlabankans. Hún væri ekki það stór og um hana væri ekki mikið að segja.

Aðspurður um þau orð Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra að mikill þrýstingur væri á stjórnvöld að skoða upptöku evru sagði Davíð að Seðlabankinn fyndi ekki fyrir þeim þrýstingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×