Viðskipti innlent

Vextir munu snarlækka á næsta ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Greiningadeild Glitnis býst við að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum í 13,3%. Næsta vaxtaávörðun verður tekin þann 6. september. Glitnir telur að stýrivaxtalækkunarferlið hefjist samhliða útgáfu Peningamála í mars á næsta ári og að bankinn lækki þá vexti sína í 13%. Því er spáð að stýrivextir verði lækkaðir nokkuð hratt á næsta ári og verði 9,25% í árslok 2008.

Í Morgunkorni Glitnis segir að óvissuþættir til hækkunar spárinnar séu áframhaldandi stóriðjuuppbygging og framhald á því ójafnvægi sem einkennt hafi þjóðarbúið. Þá sé gengið stór áhættuþáttur, en Seðlabankinn hafi lýst því yfir að veikist gengið verulega með tilheyrandi verðbólguskoti þá muni það seinka og hægja á stýrivaxtalækkunarferlinu.

„Óvissuþættir til lækkunar spárinnar eru bakslag í innlendri hagþróun vegna hérlendra eða erlendra áfalla. Þá myndu bjartari verðbólguhorfur virka í sömu átt. Óvissan er þó heldur í þá átt að vöxtum verði haldið háum lengur og að lækkunarferlið verði hægara en við spáum," segir í Morgunkorni Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×