Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan aldrei lækkað jafnmikið í einum mánuði

MYND/GVA

Úrvalsvísitalan í Kauphöll Íslands lækkaði um nærri 14 prósent í nóvember og hefur aldrei lækkað jafnmikið á einum mánuði. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Þar er bent á að mesta lækkun í mánuði hafi áður verið í október 2004 en þá lækkaði Úrvalsvísitalan um 11,5 prósent. Úrvalsvísitalan féll úr rúmlega 8.100 stigum niður í 7000 stig í nýliðnum nóvember en fór lægst í 6.674 stig þann 27. nóvember.

Hins vegar hækkaði vísitalan síðustu þrjá daga nóvember mánaðar, meðal annars vegna þess að teikn eru á lofti í Bandaríkjunum um vaxtalækkun nú í desember. Þá hafa hávaxtamyntir verið að styrkjast sem bendir til minnkandi áhættufælni fjárfesta og enn fremur hefur tryggingaálag íslensku bankanna lækkað í kjölfar tilkynningar Kaupþings þess efnis að fjármögnun bankans á hollenska bankanum NIBC væri tryggð.

Greining Glitnis telur að íslenski markaðurinnn muni áfram þróast í takt við erlenda markaði. Er sérstaklega horft til Bandaríkjanna í því sambandi enda mun tíðinda að vænta þaðan á næstu vikum sem geta haft víðtæk áhrif á markaði víða um heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×