Viðskipti innlent

Mismunandi skoðanir á veikindafjarvistum á Norðurlöndunum

Í nýjasta tölublaði Atvinnulífs á Norðurlöndum er fjallað um rannsókn á veikindafjarvistum á Norðurlöndunum út frá ólíkum sjónarmiðum. Þar kemur fram að skoðanir á veikindafjarvistum eru mjög mismunandi milli Norðurlandanna.

Þetta kemur fram í könnun, þar sem spurt var um afstöðu Norðurlandabúa á því hvort eðlilegt þætti að vera heima frá vinnu t.d. ef maður væri með "timburmenn", hafi lent í einelti eða ætti við vandamál að stríða í hjónabandinu.

Danir eru frjálslyndastir hvað varðar töku veikindaleyfis, en Finnar og Íslendingar eru íhaldsamastir. Flestir voru þeirrar skoðunar að í lagi væri að vera heima ef maður væri með kvef og hita, eða 21 prósent aðspurðra. Verst þótti að vera heima vegna "timburmanna" og mikillar drykkju. En þjóðirnar líta þó fjarveru vegna drykkju mismunandi augum. 86 prósent Norðmanna töldu ekki að fólk ætti að taka veikindadag vegna timburmanna, en einungis 71 prósent Finna voru á sömu skoðun.

Norræna ráðherranefndin um atvinnulíf setti baráttu gegn veikindafjarveru í brennidepil árið 2005. Skipaður var vinnuhópur um málið, sem fékk tvö ár til að skoða þróun veikindafjarvista á Norðurlöndunum, hvað gert hefði verið til að koma í veg fyrir þær og til að afla sér upplýsinga um það starf sem unnið hafði verið á sviðinu í hverju landi fyrir sig. Árangur starfsins hefur verið birtur í nokkrum skýrslum sem fjalla um ólík sjónarmið hvað varðar veikindafjarvistir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×