Viðskipti innlent

Geysir tilkynnir um olíufund

Gunnlaugur, sem brátt tekur sæti í stjórn Geysis Petroleum, segir mörg verkefni fyrir dyrum í olíuleit og vinnslu.
Gunnlaugur, sem brátt tekur sæti í stjórn Geysis Petroleum, segir mörg verkefni fyrir dyrum í olíuleit og vinnslu.

Olía hefur fundist í tilraunaborunum Antrim Energy í Norðursjó, en þar á Geysir Petroleum ehf. tíu prósenta hlut. Stærsti hluthafi Geysis Petroleum er svo aftur Straumborg ehf., félag í eigu fjölskyldu Jóns Helga Guðmundssonar, sem fer með rétt tæplega fimmtungshlut.

Olían fannst á 3.340 metra dýpi að því er fram kemur í tilkynningu.

Borunin er hluti af tilraunaborunum sem ætlað er að ljúki innan hálfs mánaðar og verður þá upplýst frekar um magn olíunnar sem fundist hefur, að sögn Gunnlaugs Jónssonar hjá GJ Fjármálaráðgjöf/Norvest, en hann tekur innan tíðar sæti í stjórn Geysis Petroleum. Unnið er að sameiningu Geysis Petroleum við Sagex Petroleum og InOil. Að sameiningu lokinni er stefnt að skráningu sameinaðs félags í kauphöllina í Ósló.

„Þetta er nokkuð merkilegur olíufundur. Í fyrra fundum við í samstarfi við aðra olíu og erum nú að bora á nokkuð stærra svæði og vonumst til þess að finna meiri olíu en í fyrra,“ segir Gunnlaugur, en nú er verið að mæla olíuflæðið í nýju holunni. Hann segir fundinn einnig skipta máli fyrir félagið NorEnergy sem Straumborg á líka stærstan hlut í. „Bæði félögin eru þátttakendur í þessum verkefnum með um tíu prósent hvort á þessu svæði. Geysir er íslenskt félag stjórnað af Norðmönnum, en NorEnergy norskt félag stjórnað af Kanadamönnum.“

Gunnlaugur segir starfsemina ganga vel í báðum félögum og að í kjölfar olíufundar og mögulegrar vinnslu hafi á þessu ári, síðan Straumborg kom að málum, orðið gríðarleg verðmætaaukning í félögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×