Viðskipti innlent

Nýjar upplýsingar hjá Seðlabankanum

Í Seðlabankanum er unnið að margvíslegum rannsóknum og verkefnum sem bæði fræðimönnum og almenningi kann að þykja fróðlegt að glugga í. Efnið hefur nú verið gert aðgengilegra á vef bankans.
Í Seðlabankanum er unnið að margvíslegum rannsóknum og verkefnum sem bæði fræðimönnum og almenningi kann að þykja fróðlegt að glugga í. Efnið hefur nú verið gert aðgengilegra á vef bankans. MYND/Heiða

Seðlabanki Íslands hefur gert aðgengilegar á nýju svæði á vef sínum, www.sedlabanki.is, upplýsingar um þær rannsóknir sem átt hafa sér stað í tengslum við starfsemi bankans. Þar er að auki gerð sérstök grein fyrir nýju þjóðhagslíkani sem bankinn notar, auk þess sem birt er yfirlit yfir greinar, ráðstefnur og málstofur sem bankinn tekur þátt í. „Leitast er við að gera efni fyrirlestra og greina sem aðgengilegast,“ segir Seðlabankinn.

Sérstök áhersla er lögð á kynningu á þjóðhagslíkani bankans, en undanfarin ár hefur nýtt ársfjórðungslegt þjóðhagslíkan (QMM) verið í þróun innan bankans. „Líkanið var tekið í notkun árið 2006 og er megintæki bankans við spágerð og almenna greiningu á efnahagshorfum og við hagstjórnartilraunir,“ segir Seðlabankinn.

Meðal viðfangsefna Seðlabankans í ár kemur fram að sé áframhaldandi vinna við nýtt þjóðhagslíkan og undirbúningur að þróun nýs heildarjafnvægislíkans, rannsókn á áhrifum kerfisbreytinga á innlendum húsnæðismarkaði, þróun vísbendingarlíkans fyrir innlenda hagsveiflu, rannsókn á framboðshlið lítilla ný-keynesískra heildarjafnvægislíkana og þróun nýrra gengisvoga fyrir íslensku krónuna.

„Að lokum má nefna ýmis langtímaverkefni sem hafa verið í gangi um tíma, oft í samstarfi við innlenda og erlenda fræðimenn. Má þar nefna þróun á aðferðum við mat á framleiðsluspennu, rannsókn á innlendum raunvöxtum og rannsókn á breytingum á sambandi verðbólgu og gengis krónunnar og þróun álagsprófa fyrir fjármálakerfið,“ segir á vef Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×