Innlent

Vilja kútterinn aftur á flot

Sigurfari Þykir bera skútuöldinni fagurt vitni.
Sigurfari Þykir bera skútuöldinni fagurt vitni. Mynd/JÓN ALLANSSON

Á Akranesi hefur oft verið sönglað um kátu karlana á kútter Haraldi. Það skip er þó löngu ónýtt en bróðurskipið kútter Sigurfari stendur við Byggðasafnið á Akranesi og þykir bæjarbúum mikilvægt að varðveita það. Í gær var undirritaður samningur milli menntamálaráðuneytis, Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar og Byggðasafnsins í Görðum á Akranesi um endurgerð og varðveislu skipsins. Það voru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Gunnar Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Akraness, Einar Örn Thorlacius, sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar, og Björn Elíson, formaður stjórnar byggðasafnsins, sem undirrituðu samninginn.

Gunnar Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Akraness, segir samninginn hljóða upp á 60 milljónir. Þó sé ljóst að mun meira fé þurfi til að gera kútterinn sjófæran á ný.

„Svona skip eru gerð til að vera á sjó. Þannig varðveitast þau mikið betur,“ segir Gunnar. Hann segir vonir standa til að koma upp veitingastað í skipinu og búa það nýtískuþægindum en slíkt hefur verið gert við aldin skip í Færeyjum. „Þannig haldast gömul skip enn í notkun þótt tímarnir breytist,“ segir Gunnar um skipið sögufræga, sem smíðað var árið 1885 í skipasmíðastöð í bænum Burton-on-Stather á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×