Viðskipti innlent

Spjallað í neðansjávargemsa

Kafaraflokkurinn með nýja búnaðinn. Frá vinstri eru Ásgeir Einarsson, Marteinn Ásgeirsson, Kristján Kristjánsson og Erling Guðmundsson.
Kafaraflokkurinn með nýja búnaðinn. Frá vinstri eru Ásgeir Einarsson, Marteinn Ásgeirsson, Kristján Kristjánsson og Erling Guðmundsson.

Köfunarflokkur Björgunar­félags Akraness hefur tekið í notkun nýjan fjarskiptabúnað. Með honum geta leitar­stjórnendur á yfirborðinu talað við kafara með GSM-símum. Kafararnir geta einnig talað saman neðansjávar í allt að tveggja kílómetra fjarlægð.

Sveitin safnaði fyrir búnaðinum með því að mála sumarbústaði verkalýðsfélags Akraness í Svínadal og Húsafelli.

„Þetta er alveg hreint meiri háttar tæki,“ segir Ásgeir Einarsson, formaður köfunarflokksins. „Við vorum að prófa það í Hvalfirðinum um helgina og það virkaði frábærlega án allra truflana eða skruðninga.“

Hann segir tækið virka þannig að lítið stykki sé sett framan á munnstykki kafarans, sem hann tali í. Við vinstra eyrað komi annað stykki til hlustunar.

„Með þessum búnaði er öryggi kafara aukið og öll leit bætt. Nú er mun auðveldara að skipuleggja leit en þegar allir voru sambandslausir,“ segir Ásgeir. „Stjórnandinn á yfirborðinu, sem er kannski reyndasti kafarinn, getur raðað köfurunum nákvæmlega niður í stað þess að senda þá þvert og kruss út um allt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×