Greint er frá því í forsíðufrétt Bændablaðsins að torvelt sé um þessar mundir að verða sér úti um sviðalappir, en slíkur herramannsmatur njóti jú næstum jafnmikilla vinsælda og svið gera. Torveldar framleiðsluna að dýralæknar leggist á móti flutningi lappanna milli svæða af ótta við riðusmit. Fjallalamb á Kópaskeri, en Kópasker mun vera hreint af kindasjúkdómum, er þó sagt hafa boðið upp á sviðalappir, en birgðir frá haustslátrun séu nú á þrotum. „En strax eftir áramótin verður haldið áfram að svíða og verður þá nóg til af þessu góðgæti allt árið," segir í Bændablaðinu.
Davíð og dótabúðin
Davíð Oddsson Seðlabankastjóri var við síðustu stýrivaxtaákvörðun spurður hvort opnun tveggja stórra leikfangaverslana gæti haft áhrif á efnahaginn og eyðsluna. Davíð sagði fátt um það, en undraðist viðbrögðin. Það væri eins og hér hefði aldrei fyrr verið opnuð dótabúð.
Leikfangaverslunin Bara fyrir börnin segir í auglýsingum að Seðlabankastjóri beini þeim tilmælum til fólks að vera hagsýnt við leikfangakaup og auglýsir mikla lækkun.
Það skyldi þó ekki hafa falist í orðum Seðlabankastjórans að fólk ætti að kaupa minna af dóti en ekki meira?