Erlent

Musharraf lýsir líklega yfir neyðarástandi

Forsetinn er undir þrýstingi að ráðast gegn skæruliðum í Pakistan.
Forsetinn er undir þrýstingi að ráðast gegn skæruliðum í Pakistan. MYND/afp

Ráðherra í ríkisstjórninni í Pakistan segir að Pervez Musharraf forseti muni hugsanlega lýsa yfir neyðarástandi í landinu á næstunni.

Nokkrum klukkustundum eftir að ráðherrann lét ummælin falla í gær sagði ráðamaður í flokki Musharrafs að forsetinn væri ekki að íhuga að lýsa yfir neyðarástandi í landinu. Óvíst er því hvað forsetinn mun gera en ljóst þykir að hann hefur velt möguleikanum fyrir sér. Hæstiréttur landsins getur neitað forsetanum að lýsa yfir neyðarástandi ef ekki eru forsendur fyrir því að mati réttarins.

Tariq Azim, aðstoðarráðherra upplýsingamála í ríkisstjórninni, sagði í gær að ástæðurnar fyrir því að neyðarástandi yrði kannski lýst yfir í Pakistan væru „innri og ytri ógnir" og versnandi ástand í norðvesturhluta landsins, við landamærin að Afganistan.

Ef Musharraf lýsir yfir neyðarástandi í landinu mun vald hans aukast til muna. Forsetinn mun meðal annars skert ýmis mannréttindi borgaranna: ferða-, funda- og samviskufrelsi þeirra, sem og möguleika þeirra til að leita réttar síns fyrir dómstólum. Samkvæmt stjórnarskrá Pakist­ans getur forsetinn lýst yfir neyðar­ástandi ef öryggi ríkisins er ógnað að innan eða utan og ef ekki er hægt að tryggja öryggi borgaranna með hefðbundinni stjórn.

Musharraf, sem er bandamaður Bandaríkjastjórnar í stríðinu gegn hryðjuverkum, er undir þrýstingi frá Bandaríkjunum að ráðast gegn skæruliðum í landinu, en talið er að margir þeirra séu liðsmenn al-Kaída hryðjuverka­samtakanna. Meira en 360 manns hafa látið lífið í sjálfsmorðsárásum og átökum á milli pakistanska hersins og skæruliða á einum mánuði. Upphafið að þessari hrinu andláta var þegar herinn gerði innrás í Rauðu moskuna í Islamabad í síðasta mánuði þar sem rúmlega hundrað manns létu lífð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×