Viðskipti innlent

Slakt uppgjör hjá Atlantic Petroleum

Tap Atlantic Petroleum, færeyska olíu- og gasfyrirtækisins, nam um 11 milljónum dkr. eða rúmlega 120 milljónum kr. nú á þriðja ársfjórðung. Töluverður munur er á afkomu ef litið er til sama fjórðungs í fyrra en þá nam tapið 250.000 dkr.

Tekjur Atlantic Petroleum á þriðja ársfjórðung voru í takt við væntingar en hinsvegar fjármagnskostnaður hærri en búist var við vegna gengishækkunar.

Vegvísir Landsbankans fjallar um uppgjörið og þar segir að þann 10. október s.l. tilkynnti Atlantic Petroleum, ásamt samstarfsaðilum sínum, að það hefði fundið olíu í töluverðum gæðum og í vinnanlegu magni. Olían fannst á Hook Head rétt undan ströndum Írlands. Bréf Atlantic Petroleum hækkuðu um 13,4 % daginn sem greint var frá olíufundinum.

Það sem af er árinu hafa bréf Atlantic Petroleum hækkað mest af félögum í íslensku kauphöllinni eða um tæp 220%. Í dag lækkuðu bréf Atlantic Petroleum um 9% en lækkunina má rekja til uppgjörsins sem og lækkun á markaðinum í heild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×