Viðskipti innlent

Dótturfélag Eimskips gerir risatilboð í kanadískt félag

MYND/Stöð 2

Eimskip Holdings Inc, dótturfélag Hf. Eimskipafélags Íslands, hyggst gera 67 milljarða króna yfirtökutilboð í allt hlutafé kanadíska kæli- og frystigeymslufélagsins Versacold Income Fund. Hefur stjórn Versacold Income Fund samþykkt samhljóða að mæla með yfirtökutilboðinu við hluthafa félagsins.

Fram kemur í tilkynningu frá Eimskip til Kauphallarinnar að í tengslum við tilboðið hafi Clarke Inc., stærsti hluthafi Versacold, skuldbundið sig til þess að selja Eimskip ríflega 8,2 milljónir hluta í félaginu eða sem nemur 19 prósentum af útistandandi hlutum. Að auki hefur KingSett Real Estate Growth LP skuldbundið sig til þess að selja Eimskip 2,6 milljónir hluta eða sem nemur 6,2 prósent af útistandandi hlutum.

Gert er ráð fyrir að hluthöfum félagsins verði sent formlegt yfirtökutilboð fyrir 13. júní næstkomandi og gildir það í að minnsta kosti 35 daga. Tilboðið er meðal annars háð því að eigendur að tveimur þriðju heildarhlutafjár samþykki tilboðið.

Ef yfirtakan gengur ekki eftir hefur Versacold skuldbundið sig til þess greiða Eimskip 20 milljónir kanadadollara eða sem nemur rúmlega einum milljarði króna.

Tilboðið er að fullu fjármagnað að hálfu Eimskips, Royal Bank of Canada Capital Markets og KingSett. Royal Bank of Canada hefur veitt Eimskip ráðgjöf vegna tilboðsins.

Versacold er leiðandi félag í kæli- og frystigeymslum í Bandaríkjunum og jafnframt á heimsvísu. Félagið á og rekur 72 kæli- og frystigeymslur í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Argentínu og bætast þær við yfir 100 geymslur sem eru í eigu Eimskips um allan heim. Þar með verður til stærsta frysti- og kæligeymslufyrirtæki í heimi með nærri 180 geymslur í fimm heimsálfum.

Jafnframt eykst velta Eimskips um 40 milljarða króna og verður um 150 milljarðar króna á ársgrundvelli á næsta ári. Velta Eimskips á yfirstandandi ári er áætluð um 100 milljarðar króna.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×