Viðskipti innlent

Eimskip tekur að sér rekstur stærstu kæli- og frystigeymslu í Kína

Goðafoss, skip Eimskipafélagsins.
Goðafoss, skip Eimskipafélagsins. MYND/365

Eimskip hefur samið við kínverska fyrirtækið Qingdao Port Group um rekstur á stærstu kæli- og frystigeymslu í Kína. Verður Eimskip eini rekstraraðili á þess konar geymslum í Qingdao-höfn sem er stærsta höfnin í Kína á sviði hitastýrðra flutninga. Samningurinn var undirritaður á Bessastöðum að viðstöddum Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands.

Bygging kæli- og frystgeymslunnar í Qingdao höfn stendur nú yfir og verður geymslan tekin í notkun í september á þessu ári. Fyrsti áfangi geymslunnar rúmar um 55 þúsun tonn en með samkomulaginu mun geymslugeta Eimskips verða um 110 þúsund tonn í höfninni.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að Eimskip kaupi frystgeymsluna og muni einnig byggja, ásamt Qingdao höfn, aðra jafn stóra kæli- og frystigeymslu.

Samningurinn var undirritaður á Bessastöðum í morgun að viðstöddum Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, en verkefnið hófst einmitt með heimsókn forsetans til Kína árið 2005.

Haft er eftir Baldri Guðnasyni, forstjóra Eimskips, í tilkynningu frá félaginu að Eimskip sjái mikil tækifæri í rekstri kæli- og frystigeymslna í Qingdao. Þá muni geymslan einnig þjóna markmiðum félagsins um flutninga til, frá innan milli Asíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×