Viðskipti innlent

Jón Karl ætlar að byrja á því að lækka forgjöfina

Jón Karl Ólafsson, fráfarandi forstjóri Icelandair Group.
Jón Karl Ólafsson, fráfarandi forstjóri Icelandair Group. MYND/GVA

„Ætli ég reyni ekki bara að lækka forgjöfina," segir Jón Karl Ólafsson fráfarandi forstjóri Icelandair Group um hvað liggi fyrir þegar hann lætur af störfum. Hann segir forstjóraskiptin hafa átt sér töluvert langan aðdraganda. „Þetta er búið að taka nokkurn tíma í undirbúningi. Það stóð reyndar ekki til að ganga formlega frá þessu fyrr en í næstu viku, en þegar þetta fór að kvisast út þá var ekki eftir neinu að bíða," segir Jón Karl, en Stöð 2 greindi frá forstjóraskiptunum í hádegisfréttum sínum í gær.

Jón Karl segir mikilvægt að traust ríki á milli manna í fyrirtæki á borð við Icelandair. Núverandi eigendur félagsins hafi viljað gera ákveðnar breytingar og því hafi verið ákveðið að þessi tímapunktur myndi henta til þess að skipta um stjóra. „Þetta eru búnir að vera gríðarlega spennandi tímar. Ég hef starfað með þremur mismundandi stjórnum og stjórnarformönnum og mikil rússíbanareið."

Jón Karl segist ekki kvíða framtíðinni þó óráðið sé hvað hann muni taka sér fyrir hendur, hann líti á breytingar sem þessar sem tækifæri. „Það er fullt af tækifærum þarna úti. Ég byrja nú bara á því að taka mér gott frí og síðan mun ég meta stöðuna."

Aðspurður um starfslokasamning hans við fyrirtækið segist hann ekki vilja tjá sig um hann. „Þetta er bara þessi venjulegi samningur, ég fæ laun í ákveðinn tíma en ætla ekki að fara nánar út í það," segir Jón Karl Ólafsson, fráfarandi forstjóri Icelandair Group.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×