Viðskipti innlent

Enn er mikil spenna á vinnumarkaðinum

Enn virðist mikil spenna ríkja á vinnumarkaði, en skráð atvinnuleysi var 0,8% í nóvember samkvæmt tölum sem Vinnumálastofnun birti í gær og hefur atvinnuleysi því mælst undir einu prósenti frá júlí sl.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að árstíðarleiðrétt atvinnuleysi er litlu meira, eða 0,9%. Ein birtingarmynd spennu á vinnumarkaði undanfarið hefur verið mikill aðflutningur erlends vinnuafls, en nýskráningar ríkisborgara nýrra ESB ríkja voru 847 í mánuðinum sem er nokkru minna en á undanförnum mánuðum, en í á sama tíma síðasta árs vor skráningar umtalsvert fleiri, eða 1.187.

Laus störf á skrá Vinnumálastofnunnar voru 292 í mánuðinum, en athyglisvert er að þeim fjölgar frá sama tíma síðasta árs, en þá voru þau 247.

Langtímaatvinnulausir á skrá, þ.e. þeir sem skráðir hafa verið atvinnulausir í 6 mánuði eða lengur voru 463 í nóvember og hefur fækkað frá nóvember í fyrra þegar þeir voru 499. Engu að síður hefur hlutfall þeirra af fjölda atvinnulausra hækkað en það var um 32% atvinnulausra í nóvember samanborið við 26% í nóvember í fyrra. Hækkandi hlutfall langtímaatvinnulausra endurspeglar minnkandi fjölda atvinnuleysisskráninga á milli ára.

Rétt um helmingur þeirra sem skráðir eru atvinnulausir hafa verið skráðir í 3 mánuði eða skemur, sem er til marks um mikinn gang á vinnumarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×