Viðskipti innlent

McCarthy í fleiri stjórnir hjá Baugi

Don McCarthy, stjórnarformaður Aurum Holdings. Hann situr í stjórnum Baugs og nokkurra verslanakeðja félagsins.
Don McCarthy, stjórnarformaður Aurum Holdings. Hann situr í stjórnum Baugs og nokkurra verslanakeðja félagsins.
Don McCarthy, stjórnarmaður í Baugi, hefur tekið við stjórnarformennsku í Aurum Holdings, dóttur­félagi Baugs í Bretlandi sem heldur utan um eignahluti í skartgripakeðjunum Goldsmiths, Watches of Switzerland og Mappin & Webb. Hann tekur við stólnum af Jurek Piasecki, stofnanda og fyrrum forstjóra Goldsmiths.

Í tilkynningu frá Baugi kemur fram að McCarthy búi yfir rúmlega þrjátíu ára reynslu í smásölugeiranum en hann átti hlut að stofnun Shoe Studio, sem nú heyrir undir Mosaic Fashions.

Breska dagblaðið Financial Times segir ósætti hafa komið upp á milli stjórnar Goldsmiths og Piasecki með þeim afleiðingum að hann tók poka sinn. Hann mun þó enn vera ráðgjafi hjá félaginu.

McCarthy er jafnframt stjórnar­formaður House of Fraser og stjórnarmaður í Moss Bros, sem Baugur á tæpan 29 prósenta hlut í í gegnum Unity Investments ásamt FL Group og breska fjárfestinum Kevin Stanford. Þá situr hann sömuleiðis í stjórn verslana Magasin du Nord og Illum í Danmörku. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×