Viðskipti innlent

Hreyfing opnar heilsulind í Glæsibæ með Bláa lóninu

Heilsuræktarstöðin Hreyfing og Blue Lagoon Spa hyggjast opna sameiginlega heilsulind í nýju húsnæði við Glæsibæ í Reykjavík. Eftir því sem segir í tilkynningu frá félögunum er um að ræða fyrstu heilsulind sinnar tegundar í heiminum en ætlunin er að opna fleiri slíkar heilsulindir í útlöndum á næstu árum.

Hin nýja heilsulind tekur til starfa í lok árs í Glæsibæ en þar verður boðið upp á spa-meðferðir með þeim virku efnum sem finna má í Bláa lóninu. Þau hafa hingað til aðeins verið í boði í Bláa lóninu í Grindavík. Í heilsulindinni verður einnig veitingaaðstaða og þá verða heitir pottar á skjólgóðu útisvæði.

Fjöldi viðskiptavina verður takmarkaður í Glæsibæ en alls verður heilsuræktarstöðin í 3.300 fermetra húsnæði sem er tvöfalt stærra en núverandi húsnæði Hreyfingar í Faxafeni.

„Það er afar spennandi verkefni að þróa nýja heilsulind frá grunni, en þar hefur áratuga þekking og reynsla okkar af heilsurækt nýst vel. Með því að sameina Hreyfingu og Blue Lagoon Spa undir einu þaki skapast fjölmörg tækifæri til fjölbreyttrar þjónustu í fallegu umhverfi þar sem fólk getur ræktað bæði líkama og sál," segir Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar í tilkynningu til fjölmiðla.

Heilsuræktarstöðin Hreyfing var stofnuð 1998 og er dótturfélag Bláa Lónsins hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×