Viðskipti innlent

Kaupþing, Exista og FL Group týndu 137 milljörðum í Kauphöllinni

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings.

Kaupþing, Exista og FL Group voru þau þrjú fyrirtæki sem rýrnuðu mest í Kauphöllinni í lækkunum vikunnar. Samanlagt minnkaði verðmæti fyrirtækjanna þriggja um 136,8 milljarða á fimm dögum, frá mánudegi og fram á föstudag. Verðmæti Marels jókst á sama tímabili um 1,1 milljarð og er það eina markverða hækkunin í vikunni.

FL Group var með skráð gengi upp á 20,75 mánudaginn þriðja desember en eftir tíðindi vikunnar og breytingar hjá fyrirtækinu fór gengið niður um 24,82 prósent og stóð lokagengi félagsins í 15,6 á föstudag. Þá hafði verðmæti fyrirtækisins dregist saman um 47,2 milljarða.

Kaupþing rýrnaði þó enn meira í vikunni þrátt fyrir að hafa ekki lækkað nema um 7,38 prósent. Verðmæti fyrirtækisins á föstudag hafði minnkað um 50,4 milljarða.

Exista hóf vikuna í 25,95 en lauk keppni á föstudag í 22,5. Það gerir lækkun upp á 13,29 prósent og minnkaði verðmæti félagsins um 39,2 milljarða.

365 lækkaði um 18,83 prósent í vikunni, Glitnir um 7,63 prósent, Icelandic Group um 7,38 prósent, SPRON um 11,54 prósent og Teymi um 7,75 prósent, svo dæmi séu tekin.

Verðmæti annara banka en Kaupþings minnkuðu einnig töluvert í vikunni, hjá Glitni um 28,2 milljarða, hjá Landsbanka um 21 milljarð og hjá SPRON um 6,6 milljarða. Þá minnkaði verðmæti bréfa í Straumi Burðarás um 6,6 milljarða.

Hækkanir vikunnar voru ekki eins miklar. Marel hækkaði um 4,17 prósent og jók verðmæti sitt um 1,6 milljarða og Alfesca fór upp um 2,44 prósent og verðmæti jókst um milljarð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×