Viðskipti innlent

Íslenskur hlutabréfamarkaður á krossgötum

Sigurvin B. Sigurjónsson verðbréfamiðlari hjá Íslenskum verðbréfum hf.
Sigurvin B. Sigurjónsson verðbréfamiðlari hjá Íslenskum verðbréfum hf.

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur stækkað hratt undanfarin ár og samhliða hefur veltumagnið aukist og markaðurinn þróast. Þegar staða íslenska markaðarins er skoðuð er þó réttast að líta á hann í samhengi við aðra hlutabréfamarkaði. Hér á eftir verður íslenski markaðurinn borinn saman við sænska, finnska og danska hlutabréfamarkaðinn, sem allir eru innan OMX-kauphallarsamstæðunnar.

Sú staðreynd að þessir markaðir eru nálægt okkur bæði landfræðilega og í stærð gerir þá að hentugu viðmiði. Markaðirnir verða bornir saman í ljósi þeirra þátta sem þykja hvað mikilvægastir þegar hlutabréfamarkaðir eru bornir saman.

Grunninn að skipulegum verðbréfamarkaði lagði Seðlabanki Íslands árið 1984 en í lögum um bankann voru heimildir til slíkrar starfsemi. Í byrjun voru einungis viðskipti með spariskírteini ríkis­sjóðs og síðar með húsbréf. Það var ekki fyrr en árið 1990 sem fyrstu hlutabréfin voru skráð á Verðbréfaþing Íslands, sem stofnað var árið 1988. Fram að aldamótum fjölgaði skráðum hlutafélögum ört og árin 1999 og 2000 voru félögin orðin 75. Síðan hefur skráðum félögum fækkað talsvert og eru þau nú 25. Sjávarútvegsfyrirtæki voru áberandi og í febrúar 2003 voru 17 sjávarútvegsfyrirtæki skráð í kauphöllinni. Þau hafa hinsvegar verið afskráð eitt af öðru og nú er svo komið að einungis eitt sjávarútvegsfyrirtæki er skráð á aðallista Kauphallar Íslands og er útlit fyrir að það verði afskráð innan skamms. Á sama tíma hefur vægi útrásarfyrirtækjanna aukist verulega og fara fjármálafyrirtækin þar fremst í flokki.

Óhætt er að segja að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hafi slitið barnsskónum og hefur hann gengið í gegnum miklar breytingar og þroskaskeið á undanförnum árum. Í frumbernsku var markaðurinn lítill og veikburða en hefur vaxið ásmegin. Árið 1992 var heildarmarkaðsvirði skráðra hlutabréfa aðeins 14,6 milljarðar króna, en í lok apríl 2007 var það komið í 3.302 milljarða. Það er um 293% af vergri landsframleiðslu, sem gerir íslenska hlutabréfamarkaðinn að þeim stærsta á Norðurlöndunum í hlutfalli við landsframleiðslu. Það sama kemur í ljós þegar tekið er tillit til höfðatölu.

Þá kemur í ljós að heildarmarkaðsvirði íslenska markaðarins er langmest, eða um 11 milljónir króna á hvern íbúa, Svíþjóð nær 4,9 m.kr. á íbúa, Finnland 3,9 m.kr. og Danmörk rekur lestina með aðeins 3,2 m.kr. Þessar tölur sýna okkur glögglega hve miklum virðisauka íslensku útrásar­fyrirtækin hafa skilað hluthöfum með framtaki sínu undanfarin ár.

Mikið flökt á veltuhraða
Ásgeir M. Ásgeirsson Verðbréfamiðlari hjá Íslenskum verðbréfum hf.

Velta og dýpt eru mikilvægir mælikvarðar á þroska hlutabréfamarkaða. Mikilvægt er fyrir fjárfesta að virkur markaður sé með þau bréf sem fjárfest er í, enda er skilvirk verðmyndun mikilvægur þáttur þegar fjárfestar meta fjárfestingakosti. Besti mælikvarðinn á veltu markaða er veltuhraði, þar sem heildarvelta er skoðuð sem hlutfall af heildarmarkaðsvirði. Ef veltuhraðinn er t.d. 100% þýðir það að hvert hlutabréf skipti að meðaltali einu sinni um hendur á ári. Ætla má fyrirfram að veltuhraði sé svipaður á íslenska hlutabréfamarkaðinum og öðrum norrænum mörkuðum. Veltuhraði íslenska markaðarins hefur aukist hratt undanfarin ár og var 101% á árinu 2006. Veltuhraðinn hefur einnig aukist á hinum Norðurlöndunum. Sænski og finnski markaðurinn voru með 147% og 132% veltuhraða árið 2006, athygli vekur að danski markaðurinn rekur lestina með aðeins 88% veltuhraða.

Aukin velta á Norðurlöndunum samrýmist mjög vel kenningum þess efnis að velta hafi tilhneigingu til að aukast í hækkandi mörkuðum, en ávöxtun norrænna hlutabréfavísitalna hefur verið mjög góð undanfarin ár. Sveiflur á veltuhraða frá apríl 2006 til apríl 2007 eru hins vegar mestar hér á Íslandi og munar þar töluverðu. Virðist þetta m.a. orsakast af mikilli árstíðasveiflu, en veltuhraðinn hefur t.a.m. fallið niður í 43% að meðaltali í júlí ár hvert frá árinu 2003, lægsta gildi Norðurlandanna, og náð 143% að meðaltali í september, sem er hæsta gildi Norðurlandanna í þeim mánuði. Þetta gefur til kynna að íslenskir fjárfestar dragi sig frekar í hlé frá hlutabráfaviðskiptum yfir sumartímann en auki síðan viðskiptin aftur með haustinu. Þess ber þó að geta að stór viðskipti í einstökum félögum geta haft umtalsverð áhrif á veltuhraða hérlendis og meiri en erlendis, enda er markaðurinn hér mun smærri, eins og áður var getið.

Staðalfr.v. veltuhraða

Ísland 40 %

Helsinki 27 %

Stokkhólmur 24 %

Kaupmannahöfn 19 %

Atriði sem horfa má til þegar skilvirk verðmyndun er metin er fjöldi viðskipta. Hér kemur athyglisverð staðreynd upp á yfirborðið. Þegar veltan á íslenska hlutabréfamarkaðinum er skoðuð sem hlutfall af fjölda viðskipta kemur í ljós að meðalstærð einstakra viðskipta er margföld á við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum og var allt að sexföld árið 2006. Þá var meðal­stærð viðskipta á íslenska markaðnum 17,1 m.kr., á meðan Svíþjóð var með 3,3 m.kr. Finnland 3,4 m.kr. og Danmörk 2,5 m.kr. Þetta orsakast líklega af því hve fagfjárfestar eru stór hluti af íslenska markaðinum. Þar af leiðandi verða tilboðin í kauphöllinni stærri og vægi utanþingsviðskipta verður hlutfallslega meira en á hinum Norðurlöndunum.

Utanþingsviðskipti 2007

Hlutfall af veltu

Ísland 74%

Kaupmannahöfn 33%

Helsinki 26%

Stokkhólmur 20%

Flökt í meðallagi á Íslandi

Annað atriði sem mikilvægt er að horfa til þegar skilvirkni markaða er skoðuð er hversu sveiflu­kenndir þeir eru. Algengast er að meta sveiflur markaða sem staðal­frávik ávöxtunar á ársgrundvelli. Almennt séð má segja að ef sveiflur eru miklar á mörkuðum getur það bent til þess að dýpt viðkomandi markaðar sé lítil og því valdi stórir fjárfestar meiri verðbreytingu á gengi bréfa í stórum viðskiptum en ef viðskiptin ættu sér stað á markaði þar sem dýpt væri meiri. Íslenski markaðurinn hefur haft það orð á sér að vera mjög sveiflukenndur vegna smæðar sinnar, en miðað við dagslokagildi hlutabréfamarkaða Norðurlandanna frá 12. febrúar 2004 til 30. apríl 2007 eru sveiflur mestar á finnska markaðinum og næstmestar á þeim íslenska, eins og sjá má á töflunni hér að neðan.

Staðalfrávik

Helsinki 16,3

Ísland 15,2

Stokkhólmur 15,0

Kaupmannahöfn 12,0

Þó svo að flökt sé ekki mjög mikið hér á landi á þessu rúmlega þriggja ára tímabili er það mjög breytilegt. Þegar skoðuð er þróun staðalfráviks sem byggir á dagslokagildi heildarvísitölunnar (nú OMXIGI) eitt ár aftur í tímann frá 12. febrúar 2005 og fram til 30. apríl 2007 og borið er saman við sambærilegar vísitölur norrænna markaða kemur í ljós að norrænu markaðirnir hafa oft haft sætaskipti. Íslenski markaður­inn var til að mynda með mesta staðalfrávikið mest allt síðasta ár, en er nú nýlega orðinn sveifluminnstur miðað við þennan mælikvarða. Þessa þróun má hugsanlega rekja til þess skjálfta sem var á íslenskum mörkuðum í kjölfar skýrsluskrifa erlendra greiningar­aðila um óstöðugleika í íslenska bankakerfinu, sem stóð frá febrúar og fram á vormánuði 2006. Þetta segir okkur að við getum ekki fullyrt að íslenski hlutabréfamarkaðurinn sé sveiflumeiri en norrænir hlutabréfamarkaðir, sé horft til síðustu þriggja ára.

Ljóst er að íslenski hlutabréfamarkaðurinn á margt sammerkt með öðrum Norðurlandamörkuðum innan OMX. Veltuhraðinn hefur verið svipaður undanfarin ár auk þess sem sveiflur í dagslokagildi vísitölu aðallista virðast einnig vera svipaðar. Þó hefur íslenski markaðurinn greinilega sín sérkenni á meðal norrænna hlutabréfamarkaða. Fyrir utan það að vera stærsti markaðurinn að teknu tilliti til heildar­markaðsvirðis sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og mannfjölda er fjárhæð hverra viðskipta mun hærri á íslenska markaðinum auk þess sem veltuhraðinn er sveiflukenndari en hjá nágrannaríkjunum. Orsakir þessa eru líklega fáir og stórir markaðsaðilar, sem veldur því að viðskipti verða færri, stærri og gerast í meira mæli utanþings en gengur og gerist á öðrum mörkuðum.

Hver eru næstu skref markaðarins?

Í framhaldi af þessu er eðlilegt að menn spyrji sig hvort tækifæri geti falist í sérstöðu íslenska hlutabréfamarkaðarins. Ljóst er að aðgengi smærri fjárfesta að íslenska markaðinum er ekki eins gott og að erlendum mörkuðum. Hérlendis er hægt að fá beinan aðgang að Norðurlandamörkuðunum og Bandaríkjamörkuðum beint í gegnum netið, en sömu sögu er ekki að segja um íslenska markaðinn. Þó hefur íslenskur viðskiptabanki boðið upp á þessa þjónustu í einhverjum mæli í gegnum heimabanka, en sú þjónusta er mun dýrari en bein tenging á erlenda markaði. Að bjóða upp á beinan aðgang að markaðinum, sambærilegan þeim sem boðnir eru á erlenda markaði hérlendis, myndi eflaust fjölga fjárfestum á markaðinum og dýpka hann umtalsvert.

Annað skref sem taka þarf fljótlega í átt að þroskaðri markaði er að fjölga erlendum fjárfestum. Mikilvæg skref hafa verið stigin í þessa átt nýlega með yfirtöku OMX á Kauphöll Íslands og upptöku þriggja daga uppgjörs (T+3), í samræmi við flestalla erlenda verðbréfamarkaði. Auk þess stuðlar fyrirsjáanleg samþætting OMX við alþjóðlega kauphöll að enn frekari þróun í rétta átt. Þó er langstærsta hindrun erlendra fjárfesta enn í veginum, en það er íslenska krónan. Það er ljóst að mjög margir fjárfestar setja fyrir sig að fjárfesta í jafn lítilli og dyntóttri mynt og íslensku krónunni. Raunar hafa verið stigin skref í rétta átt nýlega með samþykki hluthafafunda fyrir skráningu hlutafjár Straums-Burðaráss og Actavis í evrur. Spennandi verður að fylgjast með þróuninni þar og ef vel tekst til er líklegt að fleiri fylgi í kjölfarið og fjölbreytilegri hluthafahópar í íslenskum félögum fari að sjást.

Þó svo að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hafi stigið stór skref undanfarin ár í átt til þroska í fjölþjóðlegum samanburði er ljóst að enn er verk að vinna. Mikilvægt er að aðstandendur og aðilar markaðarins haldi áfram að feta veg framþróunar svo markaðurinn geti staðist harðnandi samkeppni um fjármagn og aukið á skilvirkni, fjárfestum öllum til handa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×