Viðskipti innlent

Glitnir seldi ný bréf í Norway Pelagic

Glitnir í Noregi hafði umsjón með 2,2 milljarða króna hlutafjárútboði Norway Pelagic sem varð til við samruna fimm norskra sjávar­útvegsfyrirtækja í uppsjávarfiski. Félagið, sem var metið á rúma fimm milljarða, verður skráð á aðallista Kauphallarinnar í Ósló á fyrri hluta næsta árs.

Kjartan Ólafsson, hjá Glitni Securities í Noregi, segir að þetta sé félag sem verður með tæp fjögur hundruð þúsund tonn af makríl, loðnu og síld, bæði norsk-íslenskri og úr Norðursjó. Fyrirtækið er með um þriðjungs markaðshlutdeild í vinnslu á uppsjávarfiski í Noregi.

„Við fórum í „roadshow“ meðfram allri vesturströnd Noregs, til London og Helsinki og erum mjög sátt við árangurinn.“ Kjartan segir að stjórnendur Norway Pelagice muni fara í endurskipulagningu til að skera niður umframframleiðslugetu. Velta félagsins er um 23 milljarðar króna og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) rúmir tveir milljarðar króna.

Kjartan á von á því að fyrirtækið sæki hlutafé við skráningu á næsta ári.

Mikið hefur verið um nýskráningar í Noregi það sem af er 2007 en Glitnir Securities er um þessar mundir að ljúka útboðsferli 24SEvenOffice sem er leiðandi fyrirtæki innan tölvutækni og ERP-internetlausna. Í lok mars lauk bankinn við að skrá REM, þjónustufyrirtæki við olíuiðnaðinn, í Kauphöllina í Ósló. Sú skráning tókst vel og hafa bréf félagsins hækkað um 33% frá henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×