Viðskipti innlent

Viðskiptahallinn ofmetinn

Lúðvík Elíasson. Hluti viðskiptahallans liggur hjá íslenskum félögum sem skráð eru erlendis en eiga hlut í íslenskum stórfyrirtækjum, að sögn greiningardeildar Landsbankans.
Lúðvík Elíasson. Hluti viðskiptahallans liggur hjá íslenskum félögum sem skráð eru erlendis en eiga hlut í íslenskum stórfyrirtækjum, að sögn greiningardeildar Landsbankans. MYND/Hörður

Viðskiptahallinn er ofmetinn, að mati Lúðvíks Elíassonar, sérfræðings hjá greiningardeild Landsbankans og annars af tveimur höfundum hagspár deildarinnar sem kynnt var í gær.

Í spánni kemur fram að halli á vöruskiptum hafi snaraukist frá því afgangur varð af vöruskiptum við útlönd upp á 1,4 prósent árið 2002. Á síðasta ári var hallinn kominn upp í 26,7 prósent af landsframleiðslu.

Skýringarnar liggja í auknum innflutningi vegna stóriðjuframkvæmda, þróun fasteignamarkaðar og sterkrar krónu. Hluti liggur þó hjá íslenskum fyrirtækjum sem að hluta eru í eigu íslenskra félaga sem skráð eru erlendis.

Lúðvík benti á að hagnaður átta stærstu fyrirtækja landsins sem skráð eru í Kauphöllina hefði numið 310 milljörðum króna í fyrra. Hagnaður fyrirtækjanna, sem öll eru að hluta í eigu félaga sem skráð eru erlendis, er færður til eigenda þeirra. Reiknast greiningardeildinni til að 100 milljarðar króna færist til félaga erlendis af hagnaði fyrirtækjanna átta. Sé ekki um arðgreiðslur að ræða er upphæðin bókfærð sem bein erlend fjárfesting. „Þetta veldur gríðarlegri hallamælingu,“ segir Lúðvík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×