Viðskipti innlent

Al Gore gestur hjá dótturfyrirtæki Landsbankans

Al Gore.
Al Gore.

Al Gore, nóbelsverðlaunahafi og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna var gestur á Orku- og umhverfisráðstefnu Merrion Capital, dótturfyrirtækis Landsbankans þann 1. desember síðastliðinn í Dublin á Írlandi. 400 gestir hlýddu á framsöguræðu varaforsetans sem bar yfirskriftina „Græn hugsun: Efnahagsstefna fyrir 21. öldina."

„Þegar John Conroy, forstjóri Merrion, bauð Nóbelsverðlaunahafann velkominn sagði hann að Dublin væri heiður að heimsókn Gore, „sem væri áhrifamesti maður um mikilvægasta málefni sem mannkynið stæði frammi fyrir í dag - loftslagsbreytingar".", segir í tilkynningu frá Landsbankanum.

„Gore sagði áheyrendum, írskum og alþjóðlegum fjárfestum og forstjórum stórra fyrirtækja, að það væri honum mikil hvatning hve umhverfismál væru ofarlega á baugi í alþjóðlegum markaðsviðskiptum," segir einnig.

„Hann fagnaði einnig möguleikum á að versla með endurnýjanlega orkukvóta. Um leið og hann óskaði Írum til hamingju með einstaklega góðan árangur í efnahagsmálum á undanförnum tíu árum sagði Gore að „aukinni hagsæld fylgdi aukin siðferðisleg og pólitísk ábyrgð um að taka forystu í glímunni við loftslagsbreytingar.""

Írland hefur einstakri stöðu að gegna að mati Gore en hann sagði að í ljósi árangurs Íra í viðskiptum gætu þeir gegnt lykilhlutverki á meðal iðnríkja við að að vekja athygli á umhverfisverndarmálum.

„Það er skoðun Landsbankans að alþjóðlegum fyrirtækjum beri skylda til að taka markvissa afstöðu til mikilvægra félagslegra, siðfræðilegra og umhverfislegra mála. Þar á meðal er glíman við loftslagsbreytingar. Bankinn tekur þátt í mörgum verkefnum til að framfylgja þessari stefnu," segir einnig í tilkynningunni og bent á að bankaráð hafi lagt aukna áherslu á að fjárfestaí fyrirtækjum og verkefnum sem hvetja til sjálfbærrar nýtingar náttúrauðlinda.

„Bankinn hyggst leggja enn frekar sitt af mörkum til að stuðla að þróun á sjálfbærri nýtingu orku og auðlinda með því að nýta íslenska sérþekkingu á þessu sviði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×