Viðskipti innlent

Góður hagnaður hjá Marel

Marel Food Systems hf. mun birta uppgjör sitt á morgun eftir hádegið. Greining Kaupþing banka hefur væntingar um gott uppgjör og segir efnahagsumhverfi þeirra markaða sem Marel starfar á verið gott á síðustu mánuðum. Áætlar Kaupþing að tekjur félagsins á öðrum ársfjórðungi verði 82,9 milljónir evra eða um 7,2 milljarðar kr. og að hagnaður félagsins á tímabilinu verði 5,8 milljónir evra eða um 500 milljónir kr.

Í Hálffimm fréttum sínum segir greining Kaupþings m.a. að spá þeirra um tekjur og framlegð sé bjartsýnni en meðalspá innlendra markaðsaðila. Hinsvegar hafi ástand á markaðssvæði Marel verið gott á öðrum ársfjórðungi og að félagið muni ná að fylgja eftir góðu uppgjöri fyrsta ársfjórðungs.

Megnið af hagnaði Marel segir Greiningin tilkominn vegna hlutdeildar Marel í gengishagnaði LME af bréfum í hollenska félaginu Stork N.V.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×