Viðskipti innlent

Bollywood nær en margur gæti ætlað

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir skrifar
Kvikmyndagúrúinn Amit Khanna telur það helst standa í vegi fyrir samvinnu Íslands og Indlands á kvikmyndasviðinu að ekki sé beint flug landanna á milli.
Kvikmyndagúrúinn Amit Khanna telur það helst standa í vegi fyrir samvinnu Íslands og Indlands á kvikmyndasviðinu að ekki sé beint flug landanna á milli. MYND/Rósa

Formaður Samtaka kvikmyndaframleiðenda á Indlandi, Amit Khanna, telur Ísland að mörgu leyti ákjósanlegan tökustað fyrir indverskar kvikmyndir. Khanna er stjórnarformaður eins stærsta afþreyingarfyrirtækis á Indlandi, Reliance Entertainment, sem er hluti af indversku risasamsteypunni Reliance Enter­tainment á Indlandi. Khanna segir það sem helst myndi standa tökum hér á landi fyrir þrifum vera að ekki er beint flug milli Indlands og Íslands. Allt of kostnaðarsamt yrði að ferja hingað tökulið og leikara, ef ekki væri unnt að fljúga beint.

Khanna var nýverið staddur hér á landi í einkaerindum. Átti hann óformlegan fund með Einari Hansen Tómassyni, verkefnastjóri hjá Fjárfestingarstofunni, sem rekur undirstofnunina Film in Iceland. „Ég kynnti fyrir honum möguleikana í því að taka upp kvikmyndir á Íslandi og þá fjórtán prósenta endurgreiðslu kostnaðar sem íslenska ríkið býður erlendum kvikmyndaframleiðendum sem taka upp hér á landi,“ segir Einar. Hann segir þó engra sérstakra tíðinda að vænta af íslensk-indversku samstarfi, að minnsta kosti ekki í bráð. Raunar sé heldur ólíklegt að mannaflafrekar kvikmyndir verði teknar upp hér á landi í nánustu framtíð.

Bollywood-mynd tekin upp á Íslandi er þó ekki eins fjarstæðukennd hugmynd og hún gæti hljómað. Mjög hefur færst í aukana að indverskar kvikmyndir séu teknar upp á erlendri grundu. Sviss hefur til að mynda verið vinsæll upptökustaður og tugir Bollywood-mynda eru teknir upp þar í landi á ári undanfarin ár. Þetta hefur auðgað svissneskan kvikmyndaiðnað en ekki síst ferðamannaiðnaðinn. Fyrir vikið er Sviss orðið vinsæll áfangastaður indverskra ferðamanna sem eru tilbúnir að leggja undir sig langt ferðalag til að sjá með eigin augum snævi þakta tindana úr kvikmyndunum.

Sviss er ekki á meðal ódýrustu landa heims, frekar en Ísland. Svissnesk stjórnvöld, kvikmyndaiðnaðurinn og ferðaþjónustan hafa hins vegar mjög meðvitað ýtt undir komur kvikmyndagerðarmanna þangað. Annar augljós kostur landsins fram yfir Ísland er að þaðan er beint flug til Indlands, sem ekki er fyrir að fara hér á landi. Sumarið 2005 var þó undirritaður loftferðasamningur milli Íslands og Indlands. Því hlýtur að vera tímaspursmál hvenær skipulagðar ferðir hefjast. Þá ætti nýr samningur um indverskt sendiráð á Íslandi einnig að liðka fyrir öllum samskiptum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×