Innlent

Vilja draga úr sókn í þorskstofninn

MYND/JS

Náttúruverndarsamtök Íslands skora á sjávarútvegsráðherra að draga úr sókn í þorskstofninn með það fyrir augum að vernda stofninn. Þetta kemur fram ályktun aðalfundar samtakanna sem haldinn var í vikunni. Vísa samtökin meðal annars í ástandsskýrslu Hafrannsóknarstofnunar frá því í fyrra þar sem lagt er til aflamark fyrir þorsk verði endurskoðað og jafnframt lækkað.

Í ályktun aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Íslands er skorað á sjávarútvegsráðherra að lækka aflareglu fyrir þorskstofninn úr 25 prósent af veiðistofni í undir 20 prósent af veiðistofninum árlega.

Í greinargerð með ályktuninni er vísað í ástandsskýrslu Hafrannsóknarstofnunar sem gefin var út í fyrra. Þar er lagt til að yfirvöld grípi til markvissra aðgerða með setningu aflamarks og endurskoðun aflareglu. Þá er ennfremur lagt til að farið verði sérstaklega yfir það hvort þörf sé á frekari verndunaraðgerðum á hrygningarslóðum í ljósi þess hversu hlutfall stórfisks í stofninum hefur lækkað á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×