Viðskipti innlent

Líkur á frekari stýrivaxtahækkun

Nokkurrar óánægju gætti í Bretlandi þegar Englandsbanki ákvað að hækka stýrivexti um fjórðung úr prósenti í 5,25 prósent fyrir um hálfum mánuði enda höfðu flestir gert ráð fyrir óbreyttum vöxtum næsta mánuðinn eða svo.

Einhugur var ekki um hækkunina innan peningamálanefndar bankans og hefur breska fréttastofan Sky eftir Timothy Besley, einum meðlimi hennar, að svo geti farið að stýrivextir hækki frekar á næstunni.

Besley bendir á að skortur sé á vinnuafli í þjónustugeiranum í Bretlandi og virðist fátt benda til að það ætli að lagast. Skorturinn hefur í för með sér aukinn launakostnað innan geirans, sem er einn sá langstærsti í landinu, og það ýtir verðbólgunni upp á við. Hún mælist um þessar mundir þrjú prósent og hefur ekki verið hærri í áratug í Bretlandi.

Stefna Englandsbanka, líkt og flestra seðlabanka, er að halda verðbólgu innan verðbólgumarkmiða. Markmið breska seðlabankans stendur í tveimur prósentum. Ljóst er að verðbólgan í Bretlandi er á uppleið og því gæti verið nauðsynlegt að hækka stýrivexti frekar til að koma böndum á hana, að sögn Besleys.-






Fleiri fréttir

Sjá meira


×