Viðskipti innlent

Öfundsverð staða en skortur á aðhaldi

Sendinefnd á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telur að efnahagshorfur á Íslandi séu enn öfundsverðar. Stjórnvöld þurfa hins vegar að beita meira aðhaldi í fjármálum ríkisins og endurskoða þarf Íbúðalánasjóð.

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kynnti sér íslensk efnahagsmál á fundum með fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífsins dagana 31. maí - 11. júní 2007. Á lokafundi nefndarinnar lagði formaður hennar fram álit sendinefndarinnar sem greinir frá helstu niðurstöðum af viðræðum hennar og athugunum hér á landi. „Til lengri tíma litið eru efnahagshorfur á Íslandi enn öfundsverðar," segir í áliti nefndarmanna sem birt var í dag.

Hins vegar er bent á að á næstunni þurfi stjórnvöld að „beita viðeigandi aðhaldi til þess að draga úr innlendri eftirspurn. Að auki þarf að efla áhrifamátt ríkisfjármála og peningamála til þess að ná þjóðhagslegum stöðugleika. Slíkar aðgerðir munu auka getu hagkerfisins til þess að takast á við óstöðugleika sem rekja mætti til hnattvæðingarinnar en þær auðvelda því jafnframt að nýta þau góðu tækifæri sem bjóðast."

Þá er sagt að endurskoða þurfi starfssemi Íbúðalánasjóðs og fyrsta skrefið ætti að vera að „lækka án tafar hámarkslán og lánshlutföll hans. Í framhaldinu þarf ríkisstjórnin að eyða fyrir fullt og allt þeirri bjögun á innlendum fjármálamarkaði sem stafar af tilvist Íbúðalánasjóðs í eigu hins opinbera. Um leið má taka upp sértækar aðgerðir sem tryggja aðgang að fasteignafjármögnun í öllum landshlutum."

Sendinefndin segir að myndun nýrrar ríkisstjórnar á dögunum „veiti upplagt tækifæri til þess að taka þær erfiðu ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til þess að styrkja efnahagsstöðugleika á Íslandi. Því fyrr sem þessar ákvarðanir eru teknar, því fyrr verður jafnvægi endurheimt í íslenska hagkerfinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×