Viðskipti innlent

Evrunefnd ráðherra enn í smíðum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson
Enn er ekki fullskipuð nefnd viðskiptaráðherra sem fara á yfir lagaumhverfi vegna evruskráningar hlutabréfa hér.

Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, seðlabankastjóri og bankastjóri Norræna fjárfestingabankans, fer fyrir nefndinni þegar hún tekur til starfa. Hann segir undirbúning nefndarstarfsins þegar vel á veg kominn með öflun gagna um hvernig málum er háttað í öðrum löndum.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir vonir bundnar við að nefndarstarfið geti gengið hratt og vel þannig að nauðsynlegar lagabreytingar gætu komið í þingið á vormisseri.

„Þetta er áríðandi mál og mikil­vægt að það geti gengið snurðulaust fyrir sig,“ segir hann og telur óeðlilegt að óskýr lög geti þvælst fyrir því að stór fyrirtæki í Kauphöll fái tekið hér upp evru.

Einar Sigurjónsson, forstjóri OMX Verðbréfaskráningar Íslands, telur einsýnt að breyta þurfi ákvæði sem Seðlabankinn hefur túlkað sem svo að hann einn megi hér annast lokauppgjör verðbréfa.

Að því er stefnt að Seðlabanki Finnlands taki að sér slíkt uppgjör evrubréfa þegar innleitt hefur verið nýtt stórgreiðslukerfi hjá Seðlabanka Evrópu á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×