Viðskipti innlent

Pálmi Haraldsson inn í FL

Björgvin Guðmundsson skrifar
Pálmi Haraldsson.
Pálmi Haraldsson.
Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður FL Group, mætti á skrifstofu Pálma Haraldssonar í Fons við Suðurgötu í gærkvöldi til að ræða aðkomu Pálma að FL Group. Gangi samningar eftir munu félög sem þessir menn eru í forsvari fyrir leggja inn fjármagn til að styrkja félagið. Unnið var að því að klára þessa samninga í gærkvöldi og fram á nótt. Pálmi og Jón Ásgeir vildu ekki tjá sig við Fréttablaðið en sögðu að málið yrði klárað sem fyrst.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa samningar meðal annars snúist um gengi á bréfum FL Group í þessum viðskiptum. Hannes Smárason forstjóri, Magnús Ármann, Þorsteinn M. Jónsson og Kevin Stanford hafa hug á að minnka hlut sinn í félaginu. FL Group mun eignast hlut Baugs í fasteignafélaginu Landic Property, áður Stoðum. Í staðinn fær Baugur afhent hlutabréf í FL Group. Ekki fengust upplýsingar um hvaða eignir eða peningar myndu fylgja aðkomu Pálma Haraldssonar að félaginu. Pálmi á einnig hlut í Landic Property.

Stefnt var að því að halda stjórnarfund í FL Group í gærkvöldi til að fara yfir stöðu mála. Búið var að boða stjórnina til fundar klukkan tíu í fyrrakvöld en þeim fundi var frestað. Tekin hefur verið ákvörðun um að Hannes Smárason hætti sem forstjóri og við taki Jón Sigurðsson aðstoðarforstjóri. Mun hann gegna stöðunni á næstunni þar til annað verður ákveðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×