Viðskipti innlent

Hádegismaturinn við skrifborðið?

Margir hafa lent í þeim aðstæðum að svo mikið er að gera við vinnu að ekki gefst tími til þess að borða hádegismat. Þá er e.t.v. gripið í samloku eða skyrdós við skrifborðið og hádegishléð jafnvel stytt í tíu mínútna hlé með litlum samræðum við samstarfsmenn. Þessi menning er víða í Evrópu og hafa þá rannsóknir vísindamanna um að á skrifborðum sé 400 sinnum meira af bakteríum en á meðalklósetti lítið að segja því að 47 prósent af aðspurðum Bretum vilja borða hádegismatinn við skrifborðið.

Starfsmenn í Austur-Evrópu virðast helst leyfa sér að fara í hádegismat og eiga þar góða stund. Yfir 60% starfsmanna í Tékklandi taka sér góðan hádegis­mat og kemur á óvart að í löndum þar sem matarhefð er mikil eins og á Ítalíu, Frakklandi og Sviss vilja 53%, 47% og 46% af starfsmönnum koma sér þægilega fyrir í hádeginu og borða góðan mat. Aðeins 20% breskra starfsmanna koma sér vel fyrir í hádeginu, 8% sænskra og aðeins 6% af dönskum starfsmönnum hafa tíma til að setjast niður og borða góðan hádegisverð.

Alls voru um 17.302 evrópskir starfsmenn spurðir spurningarinnar: „Hvað felst í því að fara í hádegismat?" Svarmöguleikarnir voru: Samloka við borðið/ Göngutúr til að ná sér í bita/ Setjast niður og koma sér vel fyrir með hádegisverð/ Ég borða ekki hádegismat.

Þeir sem helst sleppa því að borða hádegismat eru Pólverjar (21%) og Ungverjar (18%) en þeir sem eru síst líklegir til að sleppa hádegismat eru Bretar (9%), Hollendingar (5%) og Frakkar (4%). Í rannsókninni kemur í ljós að þó að siðir og vinnuhefðir geti verið álíka í mörgum Evrópuríkjum er menningin í kringum matinn ólík, einkum þegar um er að ræða að fara frá vinnustað og borða annars staðar.

Þeir sem eru duglegastir að hreyfa sig í hádeginu og fara í göngutúr um leið og þeir finna sér bita eru Finnar (58%) og kemur fram í rannsókninni að hollt sé öllum starfsmönnum að hreyfa sig í hádeginu. Það auki líka úthald starfsmanna að vera vel nærðir og þeir verði skilvirkari fram eftir degi eftir útiveru og góða næringu. Bent er á að þeir sem aldrei sjá sér fært að fara frá skrifborðinu og í hádegismat gætu líka farið á námskeið til að bæta stjórnunarhæfileika sína. (Heimild: www.onrec.com)

Sif Sigfúsdóttir

MA í mannauðsstjórnun






Fleiri fréttir

Sjá meira


×