Viðskipti innlent

Bankarnir halda enn að sér höndum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Fjármögnunarkostnaður bankanna við skuldabréfaútgáfu á erlendum mörkuðum hefur margfaldast á árinu. Aukningin núna seinni hluta ársins er sýnu mest hjá Kaupþingi, en þar eru taldar spila inn í vangaveltur um fjármögnun bankans á kaupunum á NIBC í Hollandi. Skuldatryggingarálagið er mun hærra nú en þegar verst lét í erlendri umræðu um íslenskt fjármálalíf í fyrravor og halda þeir því enn um sinn að sér höndum á þessum mörkuðum.

Guðni Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Kaupþings, segir að þar á bæ hafi menn ekki miklar áhyggjur af stöðunni enda sé lausafjárstaða bankans sterk. „En vitanlega er ekki gott að hafa CDS-álagið í þessum hæðum. Það væri dýrt að fjármagna á þessum kjörum ef við myndum velja að gera það." Guðni telur um leið að með aukinni upplýsingagjöf muni álag á bankann lækka. „Við þurfum að vera gegnsærri um yfirtöku okkar á NIBC og á þeirri staðreynd að auðvitað eigum við fjármagn til að greiða fyrir hana," segir hann og telur að við þær erfiðu aðstæður sem ríki á markaði séu yfirtökur sjálfkrafa taldar merki um aukna áhættu. Fjármagn til yfirtökunnar á NIBC segir Guðni koma úr lausafé sem bankinn eigi á bók hverju sinni. „Þá hafa kannski líka haft áhrif vangaveltur um hvort NIBC sé örugglega hreinn af þeim vanda sem hrjáði bankann fyrr á árinu, en ég held að þriðja ársfjórðungsuppgjörið hans hafi sýnt að svo sé." Aukið CDS-álag núna síðustu daga segir Guðni hins vegar í takt við það sem almennt gerist á markaði og snúi ekki sérstaklega að Kaupþingi. Hann segir að þegar fram komi fleiri teikn um aukin innlán hjá Kbankanum, svo sem með kaupum á Derbyshire á Eynni Mön, muni draga úr áhyggjum af fjármögnun bankans. „Og þá kemur CDS-álagið niður."

Ingvar H. Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis, segir líka að mikil hækkun frá mánaðamótum einskorðist ekki við íslensku bankana heldur einkenni fjármálamarkaðinn allan. „Í raun hefur allur CDS-markaðurinn verið að hækka allt frá því að Citibank, Merrill Lynch og fleiri komu fram með tilkynningar um mögulegar frekari afskriftir vegna undirmálslána og skuldavafninga," segir hann og bætir við að meðan markaðurinn sé jafnóstöðugur og nú sé ekki annað að gera en að halda að sér höndum.

Skuldatryggingarálag á fimm ára skuldabréf bankanna (CDS) hefur nú aukist um tæp 70 prósent frá mánaðamótum. Frá því í júníbyrjun, þegar álagið var hvað lægst hefur álagið meira ein áttfaldast. Mest hefur álagið hækkað skuldabréf Kaupþings frá því í sumar. Fyrsta júní var það 27 punktar ofan á millibankavexti, en var á mánudaginn 280,8 punktar. Landsbankinn hefur á sama tíma farið úr 18 punktum í 117,5 og Glitnir úr 23 punktum í 176. Til samanburðar má nefna að álag á stærsta banka Bandaríkjanna, Citigroup, var samkvæmt frétt Bloomberg 95 punktar og Bear Stearns, sem hvað harðast hefur orðið úti í tengslum við undirmálslán, 175 punktar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×