Viðskipti innlent

FL Group þrýstir á breytingar hjá AMR

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Biðröð hjá American Airlines í Flórída í Bandaríkjunum American Airlines er dótturfélag AMR, en þar er FL Group meðal langstærstu hluthafa með 9,14 prósenta hlut.
Biðröð hjá American Airlines í Flórída í Bandaríkjunum American Airlines er dótturfélag AMR, en þar er FL Group meðal langstærstu hluthafa með 9,14 prósenta hlut. Fréttablaðið/AFP
Hlutur FL Group í AMR er kominn í 9,14 prósent. Í tilkynningu frá félaginu er þrýst á um breytingar til að auka virði AMR. Gengi bréfa AMR hefur lækkað um 47 prósent frá því í janúar. FL Group kennir meðal annars um slælegri upplýsingagjöf.

FL Group hefur sent stjórn flug­félagsins AMR í Bandaríkjunum bréf og óskað eftir því að hún leiti nýrra leiða til að auka virði félagsins. FL Group er meðal þriggja stærstu hluthafa AMR, sem er einnig er móðurfélag American Airlines, og á í félaginu 9,14 prósenta hlut. Í bréfi FL Group til stjórnar AMR er raunar tiltekinn 8,3 prósenta hlutur, en í gegn gengu kaup eftir sendingu þess.

Gengi bréfa AMR hefur lækkað um 47 prósent frá því um miðjan janúar og kostað hluthafa nálægt fimm milljörðum dala, segir FL Group. Tillögur félagsins fela meðal annars í sér að Vildarklúbbur AMR, AAdvantage, verði aðskilinn frá rekstri félagsins, sem og viðhalds- og viðgerðarþjónusta.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, bendir á að FL hafi umfangsmikla reynslu af rekstri flugfélaga og félagið telji að stjórn AMR beri að leita nýrra leiða til að auka verðmæti félagsins. Með því að aðskilja Vildarklúbb félagsins sé hægt að minnka skuldir og auka virði AMR. Virðisaukning með þeirri breytingu einni er metin á fjóra milljarða dala, eða tæplega 250 milljarða króna.

FL Group telur sig ekki hafa fengið miklar undirtektir við fyrri ábendingar til stjórnar og kaus því að gera þær opinberar í gær. Standa vonir félagsins til þess að þrýstingur kunni að aukast frá öðrum hluthöfum um breytingar í framhaldinu.

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs FL Group, segir félagið sjá tækifæri til framtíðar í rekstri AMR, sem hafi verið ágætur, þótt hann hafi ekki náð væntingum markaðarins. „Við teljum að um sé að kenna upplýsingagjöf félagsins og ekki sé nógu gegnsætt hvaða virði leynist innan þess. Gegnsæi og upplýsingagjöf þarf að aukast til að stuðla að eðlilegri verðmyndun á markaði. Við vonumst til að eiga góð samskipti við stjórn félagsins í framhaldinu en ljóst að við viljum sjá skjót viðbrögð við tillögum okkar,“ segir Halldór.

Ekki þykir hafa blásið gæfulega fyrir fjárfestingar FL Group núna á þriðja ársfjórðungi. Slegið hefur verið á að gengistap FL Group sé nálægt 20 milljörðum. Þannig hafði í gær gengi bréfa Commerzbank lækkað um 19,8 prósent frá lokum annars ársfjórðungs. Þá var virði 3,24 prósenta eignarhlutar FL Group 63,8 milljarðar króna, en hefur síðan lækkað um rúma 12,6 milljarða króna. FL Group hefur hins vegar litið til tækifæra í lækkandi gengi og aukið við hlut sinn í bankanum.

Í vikunni var frá því greint að félagið væri orðið næststærsti hluthafi bankans með 4,25 prósenta hlut.

Miðað við gengi AMR í gær nemur svo gengistap af hlut FL frá lokum fyrri ársfjórðungs af þeirri eign um fimm milljörðum króna, Finnair hefur lækkað um sem nemur 10 prósentum og gengistap þar nálægt 2,4 milljörðum, og af eign í Glitni um tveir milljarðar. Ef svo er tekinn inn í dæmið fjármagns- og rekstrar­kostnaður á borð við þann sem var á öðrum ársfjórðungi eykst kostnaður um rúma fjóra milljarða.

Á móti kemur svo hagnaður af Inspired Gaming Group sem hækkað hefur um rúm 20 prósent, en var í hálfsársuppgjöri metið á um 2,3 milljarða króna. Þá er talið að töluverð dulin verðmæti liggi í eign FL í hollenska drykkjarvörufyrir­tækinu Refresco.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×