Viðskipti erlent

Fyrsta flugi Virgin America frestað vegna veðurs

Breski auðkýfingurinn Richard Branson hefur sett á stofn nýtt flugfélag, Virgin America sem ætlað er að verða í forystu á hinum harða markaði innanlandsflugs í Bandaríkjunum. Fyrsta flugvélin á vegum hins nýja félags átti að hefja sig til lofts frá JFK flugvelli í Bandaríkjunum í dag með pompi og pragt, en fresta þurfti fluginu vegna gífurlegra rigninga í borginni.

Virgin America er lággjaldaflugfélag en þægindin um borð eiga að jafnast á við venjuleg flugfélög. Notast er við nýjar Airbus A320 þotur búnar leðursætum, fullkomnum afþreyingarmiðstöðvum og þægilegri lýsingu, að því er fréttastofa Reuters greinir frá. Frestun jómfrúarflugsins er þó sögð minna Branson á hversu erfitt verk hann á fyrir höndum, því rekstur innanlandsflugs í Bandaríkjunum verið mjög erfiður síðustu ár.

„Innanlandsflug í Bandaríkjunum er ömurlegt," sagði Branson á blaðamannafundi í New York skömmu áður en fyrsta vélin átti að fara í loftið. Raunar mættu ekki margir á fundinn vegna óveðursins. „Ástæðan fyrir því að bandarísku félögin hafa verið að fara á hausin er sú að þau bjóða viðskiptavininum ekki upp á þjónustu af neinu viti.," sagði breski milljarðanmæringurinn. Hann sagði einnig að dagurinn hefði verið afskaplega skrítinn. „Ég held að helmingur gesta okkar hafi ekki einusinni komist á flugvöllinn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×