Viðskipti innlent

5,5 milljarða sveifla var hjá HB Granda

Mikill viðsnúningur varð til hins betra á rekstri HB Granda á milli ára. Fjármagnsliðir komu við sögu.
Mikill viðsnúningur varð til hins betra á rekstri HB Granda á milli ára. Fjármagnsliðir komu við sögu.

HB Grandi var rekinn með ríflega 2,9 milljarða króna hagnaði á fyrri hluta ársins sem er mikill viðsnúningur frá fyrra ári þegar félagið tapaði tæpum 2,6 milljörðum króna. Á öðrum ársfjórðungi skilaði útgerðin 527 milljóna króna hagnaði samanborið við 1.221 milljónar króna tap í fyrra.

Sölutekjur námu um 8,2 milljörðum króna og jukust um 6,6 prósent á milli ára. Rekstrartekjur voru um 3,5 milljarðar á öðrum ársfjórðungi sem var tólf prósenta samdráttur. Hann skýrist af minni veiði á úthafskarfa og kolmunna auk sterkara gengis krónunnar.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 1.930 milljónir króna á fyrri árshelmingi, án söluhagnaðar af skipum, eða um 23,6 prósent af rekstartekjum. Í fyrra var EBITDA um 1.647 milljónir og framlegðarhlutfallið um 21,5 prósent. Félagið seldi annars vegar Engey með söluhagnaði en hins vegar féll til tap við sölu Sunnubergs. Skipastóll félagsins er nú tólf skip, þar af fimm frystitogarar.

Sem fyrr léku fjármagnsliðir stórt hlutverk í uppgjöri félagsins. Þeir voru jákvæðir um tæpa 1,7 milljarða króna á fyrri hluta ársins en neikvæðir um 4,1 milljarð í fyrra. Þarna var um 5,8 milljarða króna sveifla á milli ára sem skýrist einkum af gengismun og verðbótum.

Efnahagur HB Granda hefur styrkst á árinu; eiginfjárhlutfall hefur farið úr 27,4 prósentum í byrjun árs í 37,2 prósent í lok júní. Heildareignir námu um 29 milljörðum króna í lok júní og eigið fé stóð í 10,8 milljörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×