Viðskipti innlent

Virði SPRON hátt yfir verðmati Capacent

Þegar lokað var fyrir með viðskipti á stofnfjárbréfum í SPRON þann 7. ágúst var stofnfé sparisjóðsins metið á rúma 103 milljarða króna. Samkvæmt verðmati Capacent ráðgjafar, sem unnið var vegna hlutafjárvæðingar sparisjóðsins, er SPRON metinn á 59,4 milljarða króna. Því munar um 43,6 milljörðum króna á markaðsverði SPRON við lokun stofnfjárviðskipta og því verðmati Capacent sem haft er til hliðsjónar.

Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON, bendir á að verðmat Capacent miðist við 1. apríl en frá þeim tímapunkti hefur almenn hækkun orðið á félögum.

Boðað hefur verið til stofnfjáreigendafundar næsta þriðjudag þar sem lagt verður til að þessi stærsti sparisjóður landsins sameinist hlutafélaginu SPRON. „Við teljum að þessi breyting muni auðvelda okkur annars vegar að sækja aukið eigið fé í formi hlutafjár og hins vegar aðgang að lánsfé,“ segir Guðmundur.

Samkvæmt samrunaáætlun hækkar nafnverð hlutafjár í SPRON hf. um fimm milljarða króna í tengslum við samrunann og fá stofnfjáreigendur um 85 prósent þeirrar upphæðar í skiptum fyrir stofnfjárbréf sín. Restin rennur til sjálfseignarstofnunarinnar SPRON-sjóðsins sem fær um 750 milljónir króna að nafnverði eða 8,9 milljarða að markaðsvirði. Þá er lagt til við hluthafafund að stjórn fái heimild til að hækka hlutafé um hálfan milljarð króna að nafnverði.

Guðmundur segir að samþykki stofnfjáreigendur breytinguna fari boltinn til Fjármálaeftirlitsins. „Samþykki FME þetta þá hefst næsti áfangi að reyna að fá skráningu í Kauphöllina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×