Viðskipti innlent

Baugur hagnast um tuttugu milljarða á fyrri hluta árs

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson

Hagnaður Baugs á fyrstu sex mánuðum árs nam rúmum tuttugu milljörðum króna. Arður og innleystur hagnaður voru um tuttugu og þrír milljarðar króna. Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs, segist ekki geta verið annað en sáttur við uppgjörið, eignamyndun í óskráðum eignum hafi verið góð á tímabilinu, þótt hún endurspeglist ekki nema að litlu leyti í þessum tölum.

Ástandið á bandaríska húsnæðismarkaðnum hefur ekki haft áhrif á óskráð félög í eigu Baugs að sögn Jóns Ásgeirs. Félögin séu öll fjármögnuð til lengri tíma en þriggja ára. „Óskráð félög okkar munu skila um sextíu milljörðum króna í EBITDA hagnað á þessu ári. Skuldir þeirra eru innan við þrisvar sinnum EBIDTA, sem telst létt skuldsetning miðað við það sem maður sér í kringum sig.“

Talsverðar sveiflur hafa verið á mörkuðum undanfarnar vikur. Jón Ásgeir segir að vissulega hafi hræringar á markaði haft einhver áhrif á félagið, en kveðst ekki missa svefn yfir þeirri þróun „Við höfum gegnum tíðina notfært okkur yfirskot á mörkuðum eins og við erum að sjá í dag. Aðalatriðið er hins vegar að undirliggjandi rekstur skráðra eigna er góður. Ef svo væri ekki ætti maður kannski eina og eina svefnlausa nótt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×