Viðskipti erlent

Matvöruverð skaut verðbólgu upp

Verðbólga hefur ekki mælst hærri í Kína í áratug. Miklar hækkanir á matvöruverði skýra verðbólguna.
Verðbólga hefur ekki mælst hærri í Kína í áratug. Miklar hækkanir á matvöruverði skýra verðbólguna.

Verðbólga mældist 5,6 prósent í Kína í síðasta mánuði og hefur ekki verið hærri í rúman áratug, samkvæmt nýbirtum gögnum hagstofu Kína.

Verðhækkanir á matvöru leiða hækkanirnar. Af einstökum matvælum hækkaði verð á svínakjöti mest, um 45,2 prósent, en verð á eggjum fór upp um rúm 30 prósent.

Bandaríska viðskiptatímaritið Forbes hefur eftir kínverskum ráðamönnum að þeir séu uggandi yfir því að sá 11,9 prósenta hagvöxtur sem mældist á öðrum ársfjórðungi geti leitt af sér enn meiri verðbólgu á næstu mánuðum. Séu líkur á að kínverski seðlabankinn grípi til aðgerða til að draga úr aðgengi einstaklinga og fyrirtækja að lánsfé, svo sem með hækkun stýrivaxta og með öðrum hamlandi þrepum, að sögn blaðsins.

Talsmaður hagstofu Kína segir hins vegar að óþarfi sé að bregðast harkalega við á næstunni enda liggi hækkunin nú fyrst og fremst í hækkun á matvöruverði sem sé tilkomin vegna lítils framboðs af svínakjöti á markaði. Aðrir vöruflokkar, svo sem verð á fatnaði, hafi hækkað talsvert minna, eða einungis um 0,9 prósent, á sama tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×