Viðskipti innlent

Höfum ekki sagt okkar síðasta

Hörður Arnarson, forstjóri Marels, kynnti afkomu fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi á morgunfundi á mánudag.
Hörður Arnarson, forstjóri Marels, kynnti afkomu fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi á morgunfundi á mánudag.

„Órói á mörkuðum getur falið í sér margvísleg tækifæri fyrir fyrirtæki á borð við Marel,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, en hann fór yfir afkomu þess og horfur á fundi með greinendum á mánudagsmorgun.

Hörður segir Marel skoða á hverjum tíma tvö til fjögur fyrirtæki með yfirtöku í huga, en þar ber hæst áhuga félagsins á Stork Food Systems.

Hörður segir Marel fjárhagslega sterkt fyrirtæki en undanfarið hafi umsvif private equity fjárfestingasjóða keyrt upp verð á fyrirtækjum. „Sá órói sem við höfum séð á fjármálamörkuðum og orð­rómur um takmarkað aðgengi að lánsfé getur því falið í sér tækifæri fyrir vel fjármögnuð fyrirtæki á borð við Marel því að samkeppnin um kaupin verður minni og verð lægri.“

Varðandi hlutinn í Stork segir Hörður ljóst að LME eignarhaldsfélag taki ekki yfirtökutilboði Candovers í félagið og telur ólíklegt að það verði samþykkt, enda sé það undir gengi bréfa Stork á markaði. Hann segir Marel hafa átt í óformlegum viðræðum um kaup á Food Systems, en þær ekki skilað árangri.

Þótt Hörður vilji fara varlega í yfirlýsingum má ljóst vera af orðum hans að slagurinn um Stork heldur áfram. „Við erum klárlega ekki búnir að segja okkar síðasta í þessu máli,“ segir hann, en kveðst þó ekki tilbúinn að greiða hvað sem er fyrir Stork. „En við höfum verið að kaupa undanfarna mánuði og ekki komið nein yfirlýsing um að við séum hættir því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×