Viðskipti innlent

Hvönn hindrar krabbamein

Dr. Sigmundur Guðbjarnason, fyrrverandi háskólarektor, hefur rannsakað ýmsa þætti ætihvannar en fyrirtækið SagaMedica vinnur að gerð heilsubótarefnis úr hvönninni. Sigmundur sést hér við störf ásamt Steinþóri Sigurðssyni.
Dr. Sigmundur Guðbjarnason, fyrrverandi háskólarektor, hefur rannsakað ýmsa þætti ætihvannar en fyrirtækið SagaMedica vinnur að gerð heilsubótarefnis úr hvönninni. Sigmundur sést hér við störf ásamt Steinþóri Sigurðssyni. Vísir/Valli
Fyrirtækið SagaMedica vinnur að gerð heilsubótarefnis úr hvönn sem getur unnið gegn Alzheimer og heilabilun. Dr. Sigmundur Guðbjarnason, fyrrverandi háskólarektor, hefur rannsakað lækningamátt ætihvannar og segir hana geta haft áhrif á minnistap.

„Við höfum verið að þróa efni sem virkar vel gegn gleymsku,“ segir Sigmundur. „Vísindamenn í Asíu hafa rannsakað margar gerðir af hvönn og þeir eru að setja á markað efni úr henni til að vinna gegn Alzheimer og heilabilun. Við erum að birta rannsóknir sem sýna sömu niðurstöður og rannsóknir Kóreumanna.“

Sigmundur segir hvönnina innihalda efni sem ætti að hafa jákvæð áhrif á minnistap. „Það er með tvennum hætti. Annars vegar hefur hún áhrif á ensím í heila, sem skipta miklu máli og draga úr niðurbroti boðefna í heilanum. Jafnframt eru í hvönninni efni sem víkka æðarnar og auka blóðstreymið,“ segir Sigmundur.

Framleiðsla SagaMedica fer að hluta til fram í Búðardal, en fyrirtækið er með verksmiðju á Akranesi og gengur að fullu frá vörunum í Kaupmannahöfn. Sigmundur og Steinþórs Sigurðsson, samstarfsmaður hans, hafa aðstöðu til rannsóknanna í Læknagarði Háskóla Íslands.

„Við erum búnir að birta þrjár greinar sem fjalla um áhrif hvannarinnar á vöxt krabbameinsfrumna,“ segir Sigmundur. „Hvönn getur einnig aukið mönnum kraft og framtakssemi og virkar vel gegn síþreytu. Hún hefur reynst ágætlega við ýmsum kvillum.“

Sigmundur segir þó hvönnina aðallega nýtast til forvarna. „Við erum ekki að segja að þetta geti læknað eitt eða neitt, en við vitum að þetta hefur þýðingu til forvarna,“ segir Sigmundur.

„Þessi jurt hefur verið notuð um aldir sem lækningajurt. Þá var hún gjarnan notuð við magakvillum, kvefi, flensu, streitu og kvíða,“ segir Sigmundur. „Það er mjög gott fyrir fólk að nota bara hvönnina eða hvannarlaufið í salat. Nafnið ætihvönn gefur til kynna að þetta var bara matjurt.“

Sigmundur segir að Kínverjar hafi notað hvönnina gegn risvandamálum og efnin í henni geti nýst til að auka kyngetu eldri karlmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×