Viðskipti innlent

Bankamönnum fjölgar um fimmtung á árinu

Flestir starfa hjá Kaupþingi en mesta fjölgun starfsmanna á árinu er í herbúðum Glitnis og Straums.
Flestir starfa hjá Kaupþingi en mesta fjölgun starfsmanna á árinu er í herbúðum Glitnis og Straums. MYND/GVA

Stöðugildum hjá viðskiptabönkunum þremur og Straumi-Burðarási hefur fjölgað ört frá áramótum eða um fimmtung. Um 7.740 manns störfuðu hjá bönkunum fjórum um mitt þetta ár en fjöldinn nam 6.445 í ársbyrjun. Er fjöldi bankamanna hjá þessum fjórum félögum því orðinn álíka og íbúafjöldi Mosfellsbæjar.



Mest fjölgaði starfsmönnum í herbúðum Glitnis þar sem 500 meðalstöðugildi bættust við á fyrstu sex mánuðum ársins. Sú fjölgun skýrist einkum af yfirtöku á finnska fyrirtækinu FIM. Starfsmönnum Straums fjölgaði hins vegar hlutfallslega langmest og voru fjórfalt fleiri um mitt ár en í byrjun þess síðasta. Flestir starfsmenn starfa hjá Kaupþingi, um þrjú þúsund manns, en Landsbankinn kemur næstur í röðinni.

Umtalsverð fjölgun starfsmanna er meðal þeirra skýringa sem bankarnir hafa gefið fyrir auknum gjöldum. Jafnframt hafa vaxandi umsvif bankanna erlendis aukið á kostnað. Aukning launakostnaðar og tengdra gjalda skýrist einnig af bónus til starfsfólks vegna rekstrarárangurs.

Launa- og annar rekstrarkostnaður Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hefur vaxið mikið á milli ára, um 45 prósent. Alls námu laun og annar rekstrarkostnaður um 83,6 milljörðum króna á fyrri hluta ársins samanborið við 57,4 milljarða á sama tímabili 2006. Aukningin er einnig talsverð á milli fyrsta og annars ársfjórðungs á þessu ári eða tæp sextán prósent.

Kostnaðarhlutfall bankanna, það er hlutfall rekstrarkostnaðar af hreinum rekstrartekjum, fer almennt vaxandi þótt það sé lágt í sögulegum samanburði þar sem tekjur hafa líka aukist hratt.

Launakostnaður hjá Glitni var 7,1 milljarður á öðrum ársfjórðungi og jókst um 48 prósent frá fyrsta ársfjórðungi. Þarna munu starfslok við Bjarna Ármannsson, fyrrverandi forstjóra, vega þungt. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins féllu 700 milljónir króna til vegna þeirra á fjórðungnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×