Viðskipti innlent

Kaupþing á þrjá kosti í Stórabrandi

Hreiðar Már Sigurðsson. Hlutur Kaupþings í Storebrand er metinn á fimmtíu milljarða króna.
Hreiðar Már Sigurðsson. Hlutur Kaupþings í Storebrand er metinn á fimmtíu milljarða króna. MYND/Valli

Kaupþing er komið upp með 18,5 prósenta hlut í norska fjármálafyrirtækinu Storebrand. Markaðsvirði hlutarins er fimmtíu milljarðar króna.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, segir að þrír kostir séu í stöðunni hjá bankanum. „Við gætum selt hlutabréfin okkar. Í öðru lagi gætum við reynt að taka yfir fyrirtækið. Í þriðja lagi gætum við keypt upp í tuttugu prósent og meðhöndlað félagið sem hlutdeildarfélag.“ Varðandi síðasta kostinn nefnir Hreiðar Már að Kaupþing losni við dægursveiflur á markaðsvirði Storebrand en tæki í staðinn fimmtungshluta af hagnaði norska félagsins inn í bækur bankans. „Tíminn verður að leiða það í ljós,“ segir Hreiðar spurður hvort einn möguleiki sé líklegri en annar.

Kaupþing hagnaðist ágætlega á hlutnum á fyrsta ársfjórðungi en hann gaf gengishagnað upp á ríflega 4,5 milljarða króna.

Kaupþingsmenn hafa verið spurðir hvort þeir telji líklegt að bankinn fái heimild frá norskum yfirvöldum til að fara upp fyrir fimmtungshlut. „Við teljum að það sé mjög líklegt og sjáum ekkert gegn því að norsk yfirvöld leyfi okkur það. Við erum með miklu meiri fjárhagslegan styrkleika en Storebrand og undir eftirliti fjármálayfirvalda í tíu löndum.“

Árið 2004 fékk Kaupþing – þá miklu minni banki en hann er í dag – leyfi frá dönskum fjármálayfirvöldum til að taka yfir FIH, þriðja stærsta banka Danmerkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×