Viðskipti innlent

Meta Kaupþing á við landsframleiðslu

Citigroup hefur hækkað markgengið á Kaupþingi upp í 1.500 krónur á hlutinn og mælir með kaupum í bankanum. Þetta er um 17,5 prósenta hækkun frá fyrra verðmati og kemur í kjölfar hálfs árs uppgjörs Kaupþings sem var langt umfram væntingar markaðsaðila, þar á meðal Citigroup.

Miðað við verðmatið er markaðsvirði Kaupþings um 1.111 milljarðar króna en til samanburðar var verg landsframleiðsla síðasta árs um 1.142 milljarðar króna samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Í skýrslunni kemur fram að mikill tekjuvöxtur hafi einkennt afkomu síðasta ársfjórðungs. Tekjur jukust um 67 prósent á milli ára sem er mun meiri vöxtur en sem nemur aukningu kostnaðar á sama tíma.

Citigroup reiknar með að hagnaður Kaupþings verði um 90,8 milljarðar á árinu en fari upp í 98,3 milljarða á næsta ári.

Hlutabréf í Kaupþingi lækkuðu um 0,24 prósent í gær og var lokagengi félagsins 1.262.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×