Viðskipti innlent

Hluthafar fá umhugsunarfrest

Tilboð Stillu í Vinnslustöðina hefur verið framlengt um fjórar vikur.
Tilboð Stillu í Vinnslustöðina hefur verið framlengt um fjórar vikur.

Tilboð bræðranna frá Rifi, Hjálmars og Guðmundar Kristjánssona, í allt hlutafé Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum hefur verið framlengt um fjórar vikur. Gildir það nú til klukkan fjögur, mánudaginn 20. ágúst 2007.



Í tilkynningu frá Stillu segir að samkvæmt nýlegu samanburðarmati Saga Capital fjárfestingarbanka hf., á annars vegar yfirtökutilboði Eyjamanna ehf. og hins vegar samkeppnistilboði Stillu eignarhaldsfélags ehf., geti tilboð Eyjamanna ehf. ekki talist sanngjarnt. Það sé hins vegar tilboð Stillu og í samræmi við verðlagningu hlutafjár sem hluthafar í sambærilegum félögum hafa notið á undanförnum árum.



Í tilkynningunni segir að ákvörðun um framlengingu tilboðsfrestsins sé tekin með tilliti til niðurstöðu matsins. Þar sem skammt sé liðið frá því að tilkynnt var um matið, og þar sem sumarfrí stendur nú yfir hjá almenningi, sé talið óvíst að allir hluthafar Vinnslustöðvarinnar hafi vitneskju um niðurstöðu fjárfestingarbankans.



Tilboð Stillu í Vinnslustöðina kom fram þann 31. maí síðastliðinn og hljóðar upp á 8,5 krónur fyrir hlutinn. Það er 85 prósentum hærra en tilboð Eyjamanna ehf. upp á 4,6 krónur. Stilla og tengdir aðilar fara með ríflega fjórðungshlut í Vinnslustöðinni. Eyjamenn eiga rúmlega helming hlutafjár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×