Viðskipti innlent

Barnið vex en brókin ekki

Jón Skaftason skrifar
Framkvæmdastjóri Nordvest segist taka athugasemdir FME alvarlega en gerir þó athugasemdir við framsetninguna.
Framkvæmdastjóri Nordvest segist taka athugasemdir FME alvarlega en gerir þó athugasemdir við framsetninguna. markaðurinn/e.Ól.
Jón Skaftason

„Við erum búnir að bæta úr þeim göllum sem FME gerði athugasemdir við,“ segir Skúli Sveinsson, framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins Nordvest. Fjármálaeftirlitið gerði á dögunum opinberar athugasemdir sínar í kjölfar úttektar á starfsemi Nordvest sem framkvæmd var í febrúar og mars á þessu ári. Sveinn segir fyrirtækið hafa vaxið hratt á árinu og að innviðirnir hafi hreinlega ekki þolað þann mikla vöxt.



Talið var að Nordvest hefði brotið gegn 6., 13. og 14. gr laga um verðbréfaviðskipti, en samkvæmt 15. grein laganna ber fjármála­fyrirtæki að setja reglur sem tryggja að ofangreindum lagagreinum verði fylgt. Slíkar verklagsreglur höfðu hins vegar ekki verið settar.



Fram kemur í tilkynningu frá FME að ekki hafi verið haldið sérstaklega utan um viðskipti starfsmanna og stjórnenda, jafnvel hafi tíðkast að starfsmenn framkvæmdu sjálfir eigin viðskipti. Einnig er tekið fram að stjórnendur Nordvest hafi ekki virt leiðbeinandi tilmæli FME um lágmarks eignarhaldstíma hluabréfa, og að dæmi hafi verið um að starfsmenn seldu hlutabréf sama dag og þau höfðu verið keypt.



Þá hafi komið fram í reglum Nordvest að um sérkjör starfsmanna fari samkvæmt gjaldskrá, en slík gjaldskrá hafi hins vegar ekki verið til. Loks gerir FME athugasemdir við að ekki hafi verið farið að lögum og reglum um aðgreiningu starfssviða, og að starfsmenn hafi starfað samtímis á fleiri en einu starfssviði.



Skúli segist taka athugasemdir FME mjög alvarlega en bendir þó á að lög um verðbréfaviðskipti séu smærri fyrirtækjum mjög þung í vöfum „Þetta er einfaldlega þannig að barnið vex en brókin ekki. Hér voru aðeins tveir starfsmenn í upphafi árs. Síðan hafa verið ráðnir þrír til viðbótar og þar af einn til að vinna sérstaklega í umbótum á verklagsreglum og öðru.“



Skúli er jafnframt ósáttur við framsetningu FME. Í tilkynningu kemur fram að starfsmenn Nordvest hafi í einhverjum tilfellum framkvæmt sjálfir eigin viðskipti „Mér finnst þetta röng framsetning. Þetta kom einu sinni fyrir og við tókum á því þegar það uppgötvaðist. Starfsmaðurinn sem í hlut átti var beðinn um að gera þetta ekki aftur. Um var að ræða mistök sem skrifast á reynsluleysi.“ Starfsmaðurinn sem um ræðir vinnur enn hjá Nordvest.



Stjórn Nordvest hefur nú sett félaginu verklagsreglur og regluvörður verið ráðinn. Skúli segir að umbætur hafi verið hafnar áður en Fjármálaeftirlitið framkvæmdi úttekt sína „Okkar stefna er að hafa þessi mál í fullkomnu lagi, vaxtarverkirnir eru yfirstaðnir og við höfum ráðið hingað færustu sérfræðinga landsins til að sjá til þess.“



Fjármálaeftirlitið tjáir sig ekki um málið á þessu stigi. Venjan ku þó vera sú að fyrirtækjum er gefinn tími til úrbóta áður en gripið er til refsiviðurlaga. Samkvæmt 2. og 3. mgr 74. greinar laga um verðbréfaviðskipti er eftirlitinu heimilt að beita stjórnvaldssektum allt frá fimmtíu þúsund krónum til fimmtíu milljóna fyrir brot af þessu tagi. Önnur úrræði kunna að vera dagsektir og févíti samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×