Viðskipti erlent

Karlar líklegri til að vinna

Rannsakaði fæðingarorlof Bryndís Jónsdóttir vann viðamikla rannsókn á fæðingarorlofi og er sjálf í slíku orlofi í dag.
Rannsakaði fæðingarorlof Bryndís Jónsdóttir vann viðamikla rannsókn á fæðingarorlofi og er sjálf í slíku orlofi í dag. MYND/Vilhelm

Tæplega fjórðungur fólks í fæðingarorlofi sinnir starfi sínu að einhverju leyti á meðan á orlofi stendur. Yfirstjórnendur eru líklegastir til að taka vinnuna með sér í orlofið; gera það í 65 prósentum tilvika.

Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Bryndísar Jónsdóttur, sem var unnin sem hluti af meistaraverkefni hennar í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands. Um 2.400 manns svöruðu spurningum hennar um eigið fæðingarorlof.

Um 35 prósent karla sögðust hafa unnið í fæðingarorlofinu, en 17 prósent kvenna. Stjórnendur, sérfræðingar, bændur og sjómenn voru líklegastir til að hafa sinnt starfinu meðfram orlofinu.

„Ég hef ekki hugmynd um það út frá þessari rannsókn hvort þetta fólk fær greitt fyrir vinnuna, eða hvort það er að þessu til þess að missa ekki störf sín eða líða ekki illa í orlofinu. Þetta á ekki að vera svona, ef fólki er ekki greitt fyrir á það ekki að vinna í orlofinu og það er lögbrot að greiða fyrir vinnu í fæðingarorlofi ef fólk er á 100 prósent greiðslum frá fæðingarorlofssjóði,“ segir Bryndís.

Um muninn á kynjunum segir Bryndís að karlar taki almennt styttra fæðingarorlof en konur og búti auk þess orlofið frekar niður. Þar með sé algengara að ekki sé ráðið í störf þeirra á meðan á fæðingarorlofi standi og því taki þeir gjarnan einhverja ábyrgð með sér í fæðingarorlofið, eða séu í það minnsta tiltækir fyrir vinnuveitandann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×