Viðskipti innlent

SpKef til Reykjavíkur

Guðmundur Steinarsson
Guðmundur Steinarsson

Sparisjóðurinn í Keflavík ætlar að opna útibú í Borgartúni í haust. Að sögn Geirmundar Kristinssonar, sparisjóðsstjóra SpKef, er þetta liður í því að efla þjónustu við viðskiptavini sparisjóðsins í höfuðborginni.

 „Eins og gefur að skilja vegna nálægðar okkar við höfuðborgarsvæðið þá eru margir af okkar viðskiptavinum í Reykjavík. Menn hafa svo í vaxandi mæli leitað eftir viðskiptum við okkur frá Reykjavíkursvæðinu.“ Hann útilokar ekki að SpKef færi sig inn á önnur svæði.



Geirmundur bendir á að þrjár blokkir vinni á höfuðborgarsvæðinu: Sparisjóðirnir á landsbyggðinni sem hafa með sér Samband íslenskra sparisjóða, SPRON samstæðan sem rekur sitt eigið markaðsstarf og Byr sem sameinast brátt SPK. „Þannig að út af fyrir sig er enginn einn sparisjóður lengur eftir á höfuðborgarsvæðinu eftir að Kópavogur er farinn út. Við erum út af fyrir sig fyrsti sparisjóðurinn til að vera kominn aftur inn á Reykjavíkursvæðið þegar hinir eru farnir frá okkur.“



Til þess að brúa vöxt sparisjóðsins á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu verður farið út í stofnfjárútboð í september. Uppreiknað verðmæti hins nýja stofnfjár, sem verður selt, er um 2,1 milljarður króna. Þetta er þriðja stofnfjáraukning SpKef á innan við einu ári og mun styrkja eiginfjárgrunninn. „Við erum að stækka okkur og aukum eigið fé á móti vaxandi umsvifum.“



Geirmundur telur að framtíðin sé sú að sparisjóðir eigi eftir að sameinast meira þótt sparisjóðasamrunar séu síður en svo einfaldir vegna mikilvægis þeirra fyrir samfélagið á hverju svæði. Ekkert liggur fyrir um slíkt hjá SpKef í augnablikinu. „Að sameina sparisjóði er miklu erfiðara og flóknara ferli heldur en nokkurn tímann þegar menn eru í sameiningarferli með sína eigin buddu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×