Viðskipti innlent

Sjá Úrvalsvísitöluna í 9.500 stigum á árinu

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar

 



Úrvalsvísitalan mun hækka um allt frá 37 til 48 prósenta á árinu öllu, að því er fram kemur í spám greiningardeilda viðskiptabankanna þriggja en þær hafa allar birt afkomuspár sínar fyrir hlutabréfamarkaðinn á árinu. Gangi spárnar eftir stendur Úrvalsvísitalan á bilinu 9.000 til 9.500 stigum um næstu áramót.



Vísitalan hefur hækkað mikið það sem af er árs og stóð í 8.761 stigi um eittleytið í gær. Vísitalan hækkaði um 16,8 prósent á fyrsta ársfjórðungi en um 10,8 prósent á þeim næsta. Hækkunin á fyrsta fjórðungi er sú mesta í þrjú ár en viðlíka hækkun á öðrum ársfjórðungi hefur aðeins einu sinni sést í áratug. Til samanburðar hækkaði Úrvalsvísitalan um 15,8 prósent á síðasta ári.



Í afkomuspánum er bent á að gengi Úrvalsvísitölunnar hækkaði mikið í Kauphöllinni þrátt fyrir talsverðar sveiflur á fyrri hluta ársins. Hækkunin nemur 29,5 prósentum á fyrstu sex mánuðum ársins og hefur hún haldið áfram inn í þriðja ársfjórðung, sem byrjaði nú um mánaðamótin. Í spánum er fyrirvari settur við tvísýnt gengi krónunnar, líkt og greiningardeild Kaupþings tekur til orða, háa innlenda skammtímavexti sem samhliða hækkandi vöxtum erlendis muni draga úr áhuga fjárfesta á hlutabréfum.

Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir því að gengisvísitala krónunnar standi í 117,5 stigum á árinu en hækki eftir því sem á líður og liggi við 120 til 125 stig árið 2010. Landsbankinn telur sömuleiðis líkur á að samdráttur á þorskskvóta geti haft áhrif á gengi vísitölunnar. Af þessum sökum er ekki gert ráð fyrir sambærilegum hækkunum það sem eftir lifi árs og á fyrri hluta þess.



Deildirnar segja að nú styttist í stýrivaxtalækkun Seðlabankans en gert er ráð fyrir að af því verði undir lok þessa árs eða snemma á nýju ári. Slíkt muni hafa góð áhrif á hlutabréfamarkað, sérstaklega þar sem gengi krónu muni gefa eftir í kjölfarið. Geti það stuðlað að hækkun hlutabréfa þar sem veikari króna auki tekjur og hagnað margra fyrirtækja, líkt og greiningardeild Kaupþings bendir á en 70 prósent tekna fyrirtækja í Kauphöllinni á uppruna sinn í erlendri mynt.



Bankar og fjárfestingafyrirtæki koma vel út úr spám greiningardeildanna en búist er við að bankar skili betri afkomu á árinu í heild en í fyrra. Til samanburðar telur greining Kaupþings í spá sinni, að hagnaður fjármálafyrirtækja muni nema 52 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi, sem er tíföldun frá sama tíma í fyrra.



Rekstrarfélög ganga ekki eins vel inn í seinni hluta ársins og fjármálafyrirtækin, að mati greiningardeilda bankanna þriggja sem telja að hagnaður félaganna geti dregist saman um allt að 37 prósent. Icelandair Group stendur sér á parti en bæði Glitnir og Kaupþing telja líkur á að félagið muni skila góðri ávöxtun á árinu og mæla með kaupum á bréfum í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×