Skoðun

Fagra Ísland - dagur fimm

Ögmundur Jónasson skrifar
Samkvæmt umhverfisstefnu Samfylkingarinnar, sem ber heitið Fagra Ísland, er ekki gert ráð fyrir frekari stóriðjuuppbyggingu þar til heildstæð áætlun um náttúruvernd liggur fyrir. Í kosningabaráttunni var hamrað á því að næstu fimm árin yrði stóriðjustopp ef Samfylkingin kæmist til valda.

Nú bregður svo við að eftir að Samfylkingin tekur við iðnaðar- og umhverfisráðuneytum í nýrri ríkisstjórn hefur atgangurinn í stóriðjumálum aukist fremur en hitt. Hver stóriðjudagurinn hefur komið á fætur öðrum. Strax á degi tvö kom í ljós að allt var ófrágengið varðandi friðun Þjórsárvera, á þriðja stóriðjudeginum var undirritaður orkusamningur til álvers í Helguvík, á fjórða degi kom í ljós að Samfylkingin var tilbúin að virða niðurstöðu íbúakosninga í Hafnarfirði að vettugi en nú á stóriðjudegi fimm er það Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sem á senuna.

Skýringuna er að finna í viðtali á Stöð tvö 25. júní sl. Þar segir umhverfisráðherrann enga ástæðu til þess að ríkisstjórnin skipti sér að því hvernig Landsvirkjun svari ósk Alcans um framlengingu á raforkusamningi sem gerður var vegna stækkunar í Straumsvík! Í innagangi að fréttinni vekur fréttastofan athygli á því að svar Landsvirkjunar

gæti ráðið miklu um virkjana- og stóriðjuframkvæmdir á landinu á næstu árum“. Í viðtalinu segist umhverfisráðherrann ekkert hafa kynnt sér málið enda sé þetta „bara samningar á milli Landsvirkjunar og fyrirtækisins...“ Kristján Már Unnarsson, fréttamaður: En finnst þér ekki að ríkisstjórnin eigi að koma að þessu? Þórunn Sveinbjarnardóttir: Hvers vegna ætti hún að gera það? Kristján:Þetta snertir virkjanir og hugsanlega álver á nýjum stað? Þórunn Sveinbjarnardóttir: Landsvirkjun og Alcan eru bara fyrirtæki á markaði eins og önnur fyrirtæki og þau verða bara að ná sínum samningum eins og aðrir. Svona talar umhverfisráðherra Samfylkingarinnar, sem kosinn var á þing með fyrirheitum um stóriðjustopp í fimm ár.

Að sjálfsögðu veit ráðherrann að Landsvirkjun er ekki „bara fyrirtæki á markaði“. Landsvirkjun er í reynd hluti af ríkisvaldinu. Hún er í eigu þjóðarinnar og lýtur forræði kjörinna fulltrúa hennar, þar á meðal umhverfisráðherra og annarra handhafa stefnu Samfylkingarinnar á Alþingi; þeirra sem kjörnir voru í nafni Fagra Íslands. 

 Höfundur er þingflokksformaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×