Viðskipti innlent

Sækir á evrópskan fasteignamarkað

Baugur ætlar að gera yfirtökutilboð í fasteignafélagið Immo-Croissance sem skráð er í kauphallirnar í Brussel og Lúxemborg.
Baugur ætlar að gera yfirtökutilboð í fasteignafélagið Immo-Croissance sem skráð er í kauphallirnar í Brussel og Lúxemborg.

Baugur Group hyggst gera yfirtökutilboð í fasteignafélagið Immo-Croissance. Félagið er skráð í kauphöllina í Lúxemborg og Euronext-kauphöllina í Brussel.

Samþykki allir hluthafar í Immo-Crossance tilboðið er virði kaupanna 145 milljónir evra. Það nemur rúmum tólf milljörðum króna. Búist er við að formlegt tilboð verði lagt fram á milli loka júlímánaðar til loka ágústmánaðar.

Í tilkynningu sem birtist á heimasíðu Baugs segir að eignasafn Immo-Croissance sé gott og félagið búi yfir miklum vaxtarmöguleikum. Baugur hafi trú á stjórnendum félagsins og muni vinna áfram með þeim að frekari vexti þess.

Kaupin á Immo-Croissance eru liður í þeirri stefnu Baugs Group að fikra sig frekar inn á evrópskan fasteignamarkað. Meðal fasteignafélaga í eigu Baugs eru Stoðir og Þyrping hér á landi og Keops og Nordicom í Danmörku.

Kauþing í Lúxemborg er ráðgjafi Baugs við yfirtökuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×