Viðskipti innlent

Biðin eftir tilboði Baugs á enda

Fjárfestahópur, sem ræður yfir 64,4 prósentum hlutafjár í Mosaic Fashions, móðurfélagi tískuverslanakeðja, hefur loks lagt fram formlegt yfirtökutilboð í Mosaic Fashions upp á 17,5 krónur á hlut. Eftir því hefur verið beðið síðan yfirtökuviðræður hófust á milli stjórnar félagsins og Baugs og fleiri fjárfesta í byrjun maí.

Að fjárfestahópnum standa F-Capital ehf., dótturfélag Baugs, Kaupþing, Gnúpur fjárfestingafélag, Kevin Stanford, Karen Millen, The Millen Life Interest Settlement, Don M Ltd., Tessera Holding og stjórnendendur Mosaic, þar á meðal forstjórinn Derek John Lovelock og fjármálastjórinn Richard Glanville.

Mosaic Fashions er metið á 50,7 milljarða króna út frá tilboðsverði sem er hæsta verð sem fjárfestarnir innan hópsins hafa greitt fyrir hlutabréf í Mosaic á undanförnum sex mánuðum. Tilboðið er um 7,4 prósentum hærra en sem nam lokaverði 3. maí, daginn áður en viðræður hófust og um 11,1 prósenti umfram meðalverð hlutabréfa á sex mánaða tímabili fyrir umrædda dagsetningu.

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, segir að tilboðið sé 28,7 prósentum hærra en útboðsgengi félagsins þegar það fór á markað fyrir tveimur árum. Tilboðsverðið er því mjög gott fyrir hluthafa. Með afskráningunni gefist færi á að efla félagið í næði.

Ekki hafa þó allir verið jafn sannfærðir um sanngirni þess tilboðs sem beðið hefur verið eftir. Greiningardeild Landsbankans telur að tilboðsverðið endurspegli ekki að fullu virði Mosaic og metur hlutinn á 17,9 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×